Tveir markverðir jarðskjálftar urðu á landinu undir morgun; skjálfti að stærð 4,1 við Bárðarbungu og skjálfti að stærð 2,9 við Grjótárvatn. Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni segir Bárðarbunguskjálftann hefðbundinn, hann sé sjöundi skjálftinn sem mælist fjórir eða stærri á innan við ári.
Grjótárvatnsskjálftinn er öllu eftirtektarverðari. Svæðið tilheyrir Ljósufjallakerfinu, sem teygir sig frá Snæfellsnesi að Grábrók, sem hefur minnt rækilega á sig með jarðskjálftum síðustu vikur.
„Við erum semsagt að meta það sem svo að þetta kalli á að við hækkum vöktunarstig hjá okkur varðandi Ljósufjöll og Ljósufjallakerfið. Það er ekki algengt að við fáum skjálfta á svona miklu dýpi eins og við erum að sjá við Grjótárvatn, þeir eru á 15-20 kílómetra dýpi, og það eru vísbendingar sem benda til þess að þetta séu einhvers konar kvikutengdar hreyfingar,“ segir Salóme.
Aukin vöktun fælist einna helst í því að bæta við jarðskjálftamæli, og mögulega aflögunarmælum, á svæðinu. Salóme rifjar upp að virkni á svona miklu dýpi hafi nokkrum sinnum mælst áður; í Eyjafjallajökli 1996, í Upptyppingum í kringum 2007 og nokkrum sinnum undir Mýrdalsjökli.
„En þetta er sérstakt að því leyti að þetta hefur varað mjög lengi, þannig að það er alveg tilefni til þess að við skoðum þetta mjög vel. En gos á þessu svæði hafa ekki verið algeng, þau hafa verið á fjögur hundruð ára fresti að meðaltali. Þetta eru lítil hraungos eða lítil sprengigos á stuttum sprungum. Þannig að áhrifin af þessu yrðu mjög takmörkuð, sérstaklega í samanburði við Reykjanesið þar sem innviðir eru mjög nálægt,“ segir Salóme.