Innlent

Tundur­duflið dregið út á Eyja­fjörð og eytt í birtingu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sprengjan reyndist tundurdufl en ekki djúpsjávarsprengja eins og fyrst var talið.
Sprengjan reyndist tundurdufl en ekki djúpsjávarsprengja eins og fyrst var talið. Landhelgisgæslan

Sprengjan sem togarinn Björg EA kom með til hafnar við afhafnasvæði Útgerðarfélags Akureyrar í gær reyndist tundurdufl en ekki djúpsjávarsprengja, eins og fyrst var talið.

Sprengjunni var komið ofan í sjó af sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar í gærkvöldi og dregið út í Eyjafjörð, þar sem til stendur að eyða því í birtingu. Götulokunum við Hjalteyrargötu var aflétt um klukkan 20 og gefið út að óhætt væri að hefja aftur störf í fiskvinnslu ÚA.

Greint var frá aðgerðunum á Facebook-síðu Landhelgisgæslunnar í nótt en þar segir meðal annars að tryggja hafi þurft hvellhettu tundurduflsins áður en hægt var að hefja flutning þess.

„Að því búnu var tundurduflinu komið fyrir á lyftara og það fært innan hafnarsvæðisins. Af lyftaranum var tundurduflið híft og því komið fyrir í sjó. Næst var það dregið með dráttarbáti hafnarinnar á heppilegan stað þar sem gert er ráð fyrir að því verði eytt í birtingu á morgun.“

Vísir greindi frá götulokununum í gær en athafnasvæði ÚA var rýmt þegar komið var með sprengjuna í land. Lokunarsvæðið var stækkað eftir að ákveið var að flytja sprengjuna til austurs á hafnarsvæðinu.

Samkvæmt uppfærslum lögreglunnar á Norðurlandi eystra á Facebook var sprengjunni komið ofan í sjó í framhaldinu og dregin frá svæðinu og á haf út.

Þetta er annað skiptið á rétt rúmu árið sem Björg EA fær sprengju í veiðarfærin en brot úr breskri sprengju úr síðari heimsstyrjöldinni kom í trollið utan við Melrakkasléttu 3. janúar í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×