Óróapúls mældist við Grjótárvatn á Vesturlandi síðdegis í gær. Veðurstofan hefur staðið fyrir auknu eftirliti á svæðinu vegna mikillar jarðskjálftavirkni og sagt vísbendingar um að kvika sé þar að safnast saman á miklu dýpi. Óróapúlsinn mældist á skjálftamæli í Hítárdal og er sagður sá lengsti hingað til en hann varði í fjörutíu mínútur.
Tugir eldgosa á svæðinu síðan jökla leysti
„Það er alveg möguleiki á því,“ sagði Þorvaldur í kvöldfréttum Stöðvar 2 er hann var spurður hvort þetta gæti endað með gosi í bráð.
„Þetta er náttúrulega þekkt eldgosasvæði, þetta er virkt eldgosasvæði, fjölmörg gos hafa orðið þarna síðan jökla leysti. Við erum að tala um einhverja tugi eldgosa sem hafa orðið á Snæfellsnesinu og ná þarna eiginlega alveg inn í Borgarfjörð. Þannig þetta á ekki að koma okkur á óvart þó þetta fari svona af stað.“
Allt bendi til þess að kvika sé að safnast saman á um 20 km dýpi, í neðri hluta skorpunnar á svæðinu.
„Meðan virknin er svona djúpt eru kannski litlar líkur á eldgosinu, en þetta hefur verið að færast upp, skjálftar hafa orðið á 10 km dýpi. Við vitum þá frá þeim rannsóknum sem við höfum gert á þessu svæði að kvika hún virðist safnast fyrir fyrst upphaflega á svona 20 km dýpi, færir sig svo upp á sirka 10 km dýpi og síðan fer hún í gos,“ sagði Þorvaldur.
Þá sé vitað að ef til goss kemur gæti það gerst tiltölulega hratt.
Snæfellsnesið gjósi í þyrpingum
Þorvaldur segir að miðað við gosmyndanir sem sjást á Snæfellsnesi yrði mögulegt eldgos sennilega hraungos, ekki ósvipað þeim sem sést hafa á Reykjanesskaganum undanfarin ár. Hætta myndi fyrst og fremst stafa af hraunrennsli, nái það niður í byggð.
Sveitabæir og hagar gætu farið undir hraun, og skyldi virknin færa sig vestar gæti hún fært sig nær Stykkishólmi.
Erfitt sé að segja til um það hvenær gæti gosið.
„Þessi virkni hefur verið í gangi í töluverðan tíma, allavega síðan í byrjun nóvember ef ekki lengur, þannig það er eins og Snæfellsnesið sé komið í gang að einhverju leyti,“ sagði Þorvaldur.
Þá segir hann að á Snæfellsnesi virðist gjósa í þyrpingum. Þegar eitt eldgos fari af stað fylgi önnur í kjölfarið.
„En það sem við vitum ekki er hver tímalengdin er á þessu, hvað er langt á milli þessara gosa, og hvað er langt á milli þyrpinga af gosum.“
„En við vitum að það var eitt á sögulegum tíma, og það semsagt eru rúm þúsund ár síðan síðast gaus, og þá voru allavega þrjú ef ekki fjögur gos sem komu á mjög stuttum tíma,“ sagði Þorvaldur í kvöldfréttum Stöðvar 2.