Handbolti

Á­rásin í Magdeburg: „Snertir djúpt hvað þetta var ná­lægt manni“

Aron Guðmundsson skrifar
Gísli býr í Magdeburg og spilar með handboltaliði bæjarins en hryðjuverk voru framin þar á jólamarkaði í desember síðastliðnum.
Gísli býr í Magdeburg og spilar með handboltaliði bæjarins en hryðjuverk voru framin þar á jólamarkaði í desember síðastliðnum. Vísir/Samsett mynd

Hryðju­verkin á jóla­markað í Mag­deburg, þar sem að fimm manns létu lífið og um tvö hundruð særðust, snertu ís­lenska lands­liðs­manninn Gísla Þor­geir Kristjáns­son sem leikur með hand­bolta­liði bæjarins djúpt. Gísli Þor­geir er nú mættur til móts við ís­lenska lands­liðið sem undir­býr sig af krafti fyrir komandi heims­meistaramót.

Innan við tvær vikur eru þar til að Strákarnir okkar hefja leik á heims­meistaramótinu þar sem að riðill liðsins verður spilaður í Za­greb í Króatíu. Andinn í hópnum er góður og komandi mót leggst vel í Gísla.

„Eins og alltaf, gríðar­lega vel. Maður reynir að halda í jákvæðnina út janúar, vera svolítið bjartsýnn,“ segir Gísli í sam­tali við íþrótta­deild.

Og mark­miðin eru skýr fyrir upp­haf mótsins en Ís­land er í riðli með lands­liðum Græn­höfða­eyja, Kúbu og Slóveníu.

„Þetta hljómar frekar klisju­lega en það er bara að taka einn leik í einu. Ein­beita okkur að riðlinum sem við erum í. Reyna að klára hann al­menni­lega. Það er heldur ekkert launungar­mál að okkar stærsta próf­raun í þeim riðli verður leikurinn við Slóvenana. Þeir eru með frábært lið, með heimsklassa leik­menn. Ég myndi aðal­lega segja að riðillinn sé það sem við eigum að fókusa fyrst á.“

Sakna Ómars

Liðið verður án Ómars Inga Magnús­sonar, liðs­félaga Gísla Þor­geirs hjá Mag­deburg, á HM. Hann glímir við meiðsli. Gísli segir það klár­lega högg fyrir liðið og Ómar en hann hefur hins vegar engar áhyggjur af kollega sínum.

„Það er leiðin­legt fyrir Ómar að missa af þessu. Ég hef engar áhyggjur af honum and­lega hvað það varðar. Ég veit hversu gríðar­lega sterkur hann er á því sviði en auðvitað er þetta svaka­lega leiðin­legt fyrir hann og okkur. Að missa hann.“

Tilviljun að þau voru ekki á markaðnum

Gísli býr í Mag­deburg með fjöl­skyldu sinni og hefur upp­lifað gleði­stundir en einnig mikla sorgar­stund en fyrir jólin ók maður bíl á miklum hraða inn í þvögu fólks á jóla­markaði í bænum. Fimm manns létu lítið og um 200 slösuðust.

„Þetta er staður sem ég og kærastan mín höfum nánast farið dag­lega á, hvað þá um jólatíðina. Án þess að vera eitt­hvað of dramatískur var það bara ákveðin til­viljun sem réði því að við vorum ekki á þessum stað þetta kvöld. Það snertir mann auðvitað gríðar­lega djúpt hvað þetta var nálægt manni og að sjá fólk innan bæjarins sem hafði orðið beint fyrir þessari árás, hvort sem það varð fyrir bílnum eða bara einn metra frá því. Það var bara átakan­legt að fylgjast með þessu.“

Mag­deburg er í mikilli baráttu bæði í þýsku úr­vals­deildinni sem og Meistara­deildinni á yfir­standandi tíma­bili og heilt yfir segir Gísli Þor­geir gengi liðsins allt í lagi.

„Gæti hafa verið betra. Það er enn allt opið fyrir utan þýska bikarinn. Við erum inni í Meistara­deildinni, inni í þýsku deildinni og einna skemmti­legast er hversu opin deildin er. Hvað það er svaka­lega mjótt á milli. Þú mátt ekki tapa leik því þá ertu kannski kominn niður í 5.sæti og ef þú vinnur leik ertu kominn í fyrsta. Það er auðvitað bara gríðar­lega skemmti­legt. Það er ótrú­lega mikið eftir af tíma­bilinu, maður er bara spenntur fyrir því að takast á við það verk­efni að stór­mótinu loknu.“


Tengdar fréttir

Heyrðu í þyrlum og öskrum út um gluggann

Ungt íslenskt par sem býr örskammt frá jólamarkaðnum í Magdeburg í Þýskalandi segist vera illa brugðið eftir að maður ók bifreið sinni á tugi manna fyrr í kvöld. Það hafi ekki hvarflað að þeim að slíkt gæti gerst í Magdeburg. Búið sé að eyðileggja hátíðirnar í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×