Í tilkynningu stjórnar VR segir að SVEIT hafi stofnað svokallað gult stéttarfélag sem kallist Virðing og hafi svo útbúið kjarasamning sem feli í sér beinar kjaraskerðingar fyrir starfsfólk í veitinga- og gistihúsageiranum.
„Virðing uppfyllir ekki grundvallarkröfur sem gerðar eru til stéttarfélaga, heldur er um að ræða félag sem er stofnað af atvinnurekendum sem síðan semja við sjálfa sig, fremur en að semja við starfsfólk. Þar með flokkast Virðing sem gult stéttarfélag en slík félög grafa undan réttindum og hagsmunum launafólks og ganga í raun erinda atvinnurekenda,“ segir í tilkynningu VR.
Þar tekur stjórnin heilshugar undir gagnrýni annarra stéttarfélaga á SVEIT og segir Virðingu beina spjótum sínum að fólki í viðkvæmri stöðu. Það er erlendu og ungu launafólki, og þeim sem síður þekkja rétt sinn á vinnumarkaði.
Hvetja fólk til að hafa samband
Stjórnin hvetur félagsfólk sitt til að hafa samband ef atvinnurekandi þeirra fer þess á leit við þau að þau gangi í Virðingu eða vinni eftir kjarasamningi félagsins.
„Kjarasamningur Virðingar er í öllum atriðum mun lakari en kjarasamningar VR og felur í sér skerðingu á kjörum starfsfólks í ferðaþjónustu. Launataxtar eru lægri, dagvinnutímabil er lengra og nær inn á laugardag, uppsagnarfrestur er mun lakari sem og veikindaréttur og önnur réttindi eru skert verulega, svo fátt eitt sé nefnt. Kjarasamningur Virðingar gengur að auki gegn lögum um vinnumarkaðinn,“ segir í tilkynningu VR og er vísað í umfjöllun á vef Eflingar og ASÍ því til stuðnings.
Þá segir að lokum að framkoma Virðingar og SVEIT sé að mati stjórnar VR „svívirðileg atlaga að réttindum launafólks og markar afturför í kjarabaráttu.“ Stjórnin