Íslenska landsliðið þurfti að treysta á að Tyrkir myndu ekki tapa leiknum gegn Wales í kvöld til að eiga möguleik á 2. sætinu í öðrum riðli B-deildar Þjóðadeildarinnar.
Leikurinn fór fram í Tyrklandi og voru heimamenn sterkari aðilinn. Þeir áttu alls 25 marktilraunir í leiknum en gekk illa að finna netmöskvana. Þar sem Ísland vann sigur á Svartfjallalandi var ljóst að Wales þurfti sigur til að gulltryggja annað sætið en þeir áttu fá marktækifæri í leiknum.
Á 89. mínútu fengu Tyrkir síðan vítaspyrnu og var það Karem Akturkoglu sem fékk tækifærið til að tryggja heimaliðinu sigur en Akturkoglu skoraði þrennu í 3-1 sigrinum gegn Íslandi í september. Hann skaut hins vegar í stöngina og framhjá og leiknum lauk með markalausu jafntefli.
Þetta þýðir að Tyrkir eru í efsta sæti í öðrum riðli þegar ein umferð er eftir. Þeir eru með 11 stig en Wales í 2. sæti með 9 stig. Ísland er í 3. sætinu með 7 stig og gæti staðan því breyst á þriðjudaginn. Ísland mætir þá Wales í Cardiff á meðan Tyrkir mæta Svartfellingum á útivelli.