Innlent

Þórður Snær mun ekki taka þing­sæti

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Þórður Snær Júlíussson, frambjóðandi Samfylkingarinnar.
Þórður Snær Júlíussson, frambjóðandi Samfylkingarinnar. Vísir/vilhelm

Þórður Snær Júlíusson, frambjóðandi Samfylkingarinnar, hefur ákveðið að taka ekki þingsæti hljóti hann kjör í komandi Alþingiskosningum. 

Frá þessu greinir hann í yfirlýsingu á Facebook rétt fyrir hádegi. Tilefnið er gömul bloggskrif hans frá árunum 2004 til 2007 sem rifjuð voru upp í vikunni.

Þórður segist bera ábyrgð á öllum þeim skrifum sem hafa birst í fjölmiðlum síðustu daga, þau hafi verið röng, meiðandi og skaðleg og segist hann skamma sín djúpt fyrir þau.

„Ég bið alla sem hafa orðið fyrir áhrifum af þeim, og bara alla yfir höfuð, aftur og ítrekað, afsökunar á því að hafa skrifað með þessum hætti. Ég geri mér með öllu grein fyrir því að svona skrif og svona sjónarmið hafa valdið miklum skaða í fortíð, nútíð og framtíð og að þau skipti máli í að kvenfjandsamleg menning hefur þrifist,“ skrifar hann. 

„Fyrri afsökunarbeiðni mín og ábyrgðartaka átti ekki að vera sett fram með léttúð. Hún, líkt og þessi, er einlæg og án fyrirvara,“ skrifar hann.

Fer ekki fram á að umræðunni sé lokið

„Ég er ekki fórnarlamb neinna aðstæðna. Ég ætla ekki að reyna að réttlæta skrifin. Ég hefði einfaldlega átt að vita betur og gera betur. Ég fer ekki fram á að umræðu um skrifin sé lokið með neinum hætti þótt ég hafi beðist afsökunar og iðrist,“ segir hann.

Hann hafi eytt umræddri bloggsíðu af internetinu fyrir um sautján árum vegna þess að hann hafi áttað sig á að skrifin „voru ekki sniðug og ögrandi heldur vond, meiðandi og skaðleg og ættu ekki að rata fyrir augu neins framar“. 

Skjáskot hafi lifað af síðunni á vefsöfnum og það hafi því komið honum „jafn mikið í opna skjöldu og raun bar vitni“ þegar hann var spurður út í þau af Stefáni Einari Stefánssyni í Spursmálum. 

„Það breytir þó engu um ábyrgð mína á skrifunum. Hún er, líkt og áður sagði, algjör.“

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×