Vegna uppsafnaðra gulra spjalda þarf Jovetic að taka út leikbann og segir Risto Radunovic, einn af reyndari leikmönnum Svartfellinga það vera mikinn skell.
„Við hörfum trú á sigri þó að við séum mjög særðir þar sem að fyrirliðinn okkar, Jovetic, tekur út leikbann í leiknum. Þrátt fyrir það höfum við trú á því að okkar leikmenn búi yfir gæðum og styrk til þess að sækja sigur. Þetta verður erfiður leikur. Ísland er með mjög gott lið, við sáum það í fyrri leik liðanna. Ég býst þó við því á okkar heimavelli, með okkar stuðningsmenn á bak við okkur að við getum náð í góð úrslit.“

Leikurinn hefur mikla þýðingu fyrir Ísland sem þarf sigur og treysta á að Wales tapi um leið stigum gegn Tyrklandi til að stilla upp úrslitaleik um umspilssæti við Wales á þriðjudaginn kemur fyrir A deild Þjóðadeildarinnar. Svartfellingar eru enn án stiga í riðlinum og vilja sækja sín fyrstu gegn okkar mönnum.
„Við horfum klárlega á sóknarmenn liðsins sem ógn. En Ísland hefur yfir að skipa góðu liði. Eru góðir í föstu leikatriðunum. Þetta verður erfiður leikur. Við erum með núll stig í riðlunum og þurfum að snúa því gengi okkar við og ná í sigur.“
Ísland vann fyrri leik liðanna í Reykjavík fyrr á árinu þar sem að bæði mörk okkar manna komu eftir hornspyrnu. Aðspurður hvort Svartfellingar hefðu farið sérstaklega yfir föstu leikatriðin var Risto stuttorður og hnitmiðaður.
„Já.“
Leikurinn fer fram í Niksic í Svartfjallalandi í dag og verður sýndur í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 sport. Upphitun hefst klukkan 16:30.