Barcelona vann ótrúlegan 4-0 sigur er liðið heimsótti Real Madrid í stærsta leik ársins í spænska boltanum í kvöld, El Clásico.
Heimamenn í Real Madrid voru sterkari á stórum köflum leiksins, en náðu ekki að skapa sér mikið af opnum marktækifærum. Í þau skipti sem Madrídingar ógnuðu marki gestanna fór flaggið yfirleitt á loft og stórstjörnurnar Kylian Mbappé og Vinicius Junior voru dæmdar rangstæðar.
Eftir markalausan fyrri hálfleik tókst gestunum loks að brjóta ísinn þegar Robert Lewandowski slapp einn í gegn og kláraði vel á 54. mínútu, og tveimur mínútum síðar var Pólverjinn svo búinn að tvöfalda forystu gestanna með góðum skalla.
2 GOALS.
— LALIGA English (@LaLigaEN) October 26, 2024
2 MINUTES.
Man of the moment. 💙❤️#ELCLÁSICO pic.twitter.com/aiEQTcfT9u
Ungstirnir Lamine Yamal bætti svo þriðja marki Börsunga með frábærri afgreiðslu á 77. mínútu áður en Raphinha slapp einn í gegn og lyfti boltanum yfir Andriy Lunin í marki Madrídinga skömmu fyrir leikslok.
Niðurstaðan því ótrúlegur 4-0 sigur Barcelona sem trónir á toppi spænsku deildarinnar með 30 stig eftir 11 leiki, sex stigum meira en Real Madrid sem situr í öðru sæti.