Handbolti

Vipers bjargað frá gjald­þroti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vipers Kristiansand vann Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð (2021-23).
Vipers Kristiansand vann Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð (2021-23). epa/Tibor Illyes

Norska handboltafélaginu Vipers Kristiansand, sem hefur unnið Meistaradeild Evrópu í þrígang, hefur verið bjargað frá gjaldþroti.

Í gær var greint frá því að Vipers væri á leið í gjaldþrot og allir leikmenn félagsins væru samningslausir.

Margt hefur hins vegar gerst bak við tjöldin síðustu klukkutímana því Peter Gitmark, formaður stjórnar Vipers, greindi frá því fyrir skemmstu að félaginu hefði verið bjargað.

Boðað verður til ársfundar í dag þar sem ný stjórn Vipers verður kosin. Núverandi stjórnarmenn hafa afsalað sér sínum sætum.

Fjárfestahópur sem Morten Jørgensen leiðir vill eignast Vipers og koma félaginu aftur á réttan kjöl.

Leikmönnum Vipers hefur verið greint frá vendingum síðustu klukkutíma. Þeir fengu ekki útborgað á föstudaginn en Gitmark segir að þeir fái launin sín greidd eins fljótt og kostur er. Leikmenn Vipers þurfa ekki að taka á sig launalækkun.

Vipers hefur orðið norskur meistari undanfarin sjö ár og vann Meistaradeildina þrjú ár í röð (2021-23). Meðal þekktra leikmanna liðsins má nefna norsku landsliðsmarkverðina Katrine Lunde og Silje Solberg-Østhassel, sænsku landsliðskonuna Jaminu Roberts og Lois Abbingh frá Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×