Þetta kom fram í Kastljósi á Rúv í kvöld. Þar fjallaði Bjarni einnig um hugtakið „starfsstjórn“ sem honum hefur þótt vera mistúlkað að einhverju leiti í umræðunni undanfarna daga.
Það gerði hann í kjölfar þess að Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, talaði um að mynda starfsstjórn undir forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknar.
„Það kemur á óvart að heyra þetta frá svona reyndum stjórnmálamanni [Svandísi] að það eigi að skipa starfsstjórn með öðrum forsætisráðherra. Starfsstjórn er ríkisstjórn sem hefur beðist lausnar og er beðin um að sitja áfram fram í kosningar. Það er starfsstjórn,“ sagði Bjarni
„Ef menn vilja nýja ríkisstjórn með nýjum forsætisráðherra og öðrum ráðherrum þá mynda menn nýja ríkisstjórn.“
Hann bætti við að ný ríkisstjórn geti bæði verið meirihlutastjórn eða minnihlutastjórn.
Hann sagði að tíma allra yrði betur borgið ef komið yrði á starfsstjórn. Þá væri hægt að koma á mikilvægum málum í gegn fyrir kosningar.
„En ef einn þátttakandi í stjórnarsamstarfinu vill ekki sitja í starfssjórn undir þinni forystu?“ spurði Bergsteinn Sigurðsson, stjórnandi þáttarins. „Það væri sögulegt,“ svaraði Bjarni.
„Eftir að ég biðst lausnar. Þá er komin yfirlýsing um það að það sé ekki lengur meirihlutastjórn starfandi. Það er ekki meirihlutasamkomulag. Þannig að ráðherrar eru eingöngu að starfa í starfsstjórn og gegna sínum starfsskildum sem ráðherrar, ekki á grundvelli að þeir sitji þar á grundvelli meirihlutastuðnings þingsins.“
Bjarni sagði að hugmynd Svandísar um starfsstjórn með nýjum forssætisráðherra væri „bara einhver furðukenning“ sem hann hefði aldrei heyrt um áður.
„Þetta er bara einhver misskilningur því miður.“