„Mér líður vel því við enduðum síðasta leik vel. Við spiluðum mjög vel í seinni hálfleik. Ég held að strákarnir séu undirbúnir,“ sagði Åge í samtali við íþróttadeild í gær.
Ljóst er að hann þarf að gera tvær breytingar á byrjunarliði Íslands frá leiknum gegn Wales, sem endaði með 2-2 jafntefli, þar sem Stefán Teitur Þórðarson og Jón Dagur Þorsteinsson eru í banni. Breytingar verða þó allavega þrjár því Logi Tómasson, hetjan frá leiknum gegn Wales, verður einnig í byrjunarliðinu.
„Logi gerði mjög vel þegar hann kom inn á og hann byrjar. Við sjáum á morgun [í dag] hvaða liði við munum stilla upp. Við erum með leikmenn í hópnum sem geta komið inn og gert vel,“ sagði Åge og bætti við að engin meiðsli hefðu komið upp í íslenska hópnum frá leiknum gegn Wales á föstudaginn.
„Við æfðum við frábærar aðstæður í Hafnarfirði og það hefur verið gott. Fyrst var endurheimt eftir erfiðan leik gegn Wales. Drengirnir líta ágætlega út og við hlökkum til leiksins.“
Ísland tapaði fyrri leiknum gegn Tyrklandi, 3-1. Kerem Aktürkoglu skoraði öll mörk Tyrkja í leiknum í Izmir.
„Við verðum að stöðva hann en það eru margir góðir leikmenn í tyrkneska liðinu,“ sagði Åge. „Við einbeitum okkur að okkar liði en vonandi getum við haldið þeim í skefjum og einnig boðið upp á sóknarfótbolta.“
Horfa má á viðtalið við Åge í spilaranum hér fyrir ofan.
Leikur Íslands og Tyrklands hefst klukkan 18:45 og verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst hálftíma fyrr.