Innlent

Lítið jökul­hlaup hafið í Skálm

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Lítið jökulhlaup er hafið í Skálm.
Lítið jökulhlaup er hafið í Skálm. Jóhann K. Jóhansson

Lítið jökulhlaup er hafið í Skálm. Rafleiðni mælist um 263 µS/cm. Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að hlaupið sé mikið minna en hlaupið sem olli skemmdum á Þjóðveginum í sumar.

Tilkynng um þetta var birt á vef Veðurstofunnar.

Fólk er beðið um að sýna aðgát við upptök árinnar og nærri árfarvegnum þar sem gasmengun gæti verið á svæðinu.

Engar tilkynningar um brennisteinslykt hafi borist Veðurstofunni enn sem komið er.

Rennsli í ánni muni mögulega aukast enn frekar, og svæðið verði vaktað.

„Þetta er auðvitað fjórða hlaupið síðan 27. júlí. Þá fór rafleiðni í þúsund, en núna er hún 263. Við höfum ekki miklar áhyggjur af þessu eins og er,“ segir Bjarki.

Hann segir að fólk á svæðinu þurfi samt að sýna aðgát, til dæmis fólk í íshellaferðum á svæðinu.

Einnig ætti fólk ekki að tjalda nálægt veginum eða árbakkanum.

„En fólk er ekkert að gera það reyndar,“ segir hann.

Í sumar þurfti að loka hringveginum vegna mikilla skemmda eftir umgangsmikið jökulhlaup úr Skálm. Hlaupið var óvenjustórt, en engin merki voru um að eldgos undir jöklinum hefði valdið því.

Sveinbjörn Darri Matthíasson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×