Enski boltinn

Pössuðu að leik­menn Fulham væru aldrei einar með Al Fayed

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Al Fayed keypti Fulham fyrir þrjátíu milljónir punda 1997.
Mohamed Al Fayed keypti Fulham fyrir þrjátíu milljónir punda 1997. getty/Joe Giddens

Fyrrverandi þjálfari kvennaliðs Fulham í fótbolta segir að gripið hafi verið til sérstakra ráðstafana til að vernda leikmenn þess fyrir eigandanum Mohamed Al Fayed.

Hann lést í fyrra, 94 ára að aldri. Al Fayed er þekktastur fyrir að vera eigandi verslunarinnar Harrods og vera faðir Dodis Al Fayed sem lést í bílslysinu með Díönu prinsessu 1997. Al Fayed átti líka Fulham um sextán ára skeið.

Í nýrri heimildamynd BBC, Al Fayed: Predator at Harrods, stigu um tuttugu konur fram og sökuðu Al Fayed um kynferðisofbeldi. Fimm þeirra sökuðu hann um nauðgun.

Gaute Haugenes stýrði kvennaliði Fulham á árunum 2001-03 og hefur greint frá því að starfsfólk þess hafi verið meðvitað um kenndir Al Fayeds. Haugenes segir að leikmenn Fulham hafi ekki mátt vera einar með Al Fayed.

„Ég las um þetta og þetta kemur ekki á óvart,“ sagði Haugenes um uppljóstranirnar sem komu fram í heimildamyndinni um Al Fayed.

„Við vissum að hann var hrifinn af ungum, ljóshærðum stúlkum. Svo við vernduðum leikmennina.“

Í yfirlýsingu frá Fulham segist félagið miður sín yfir fréttum síðustu daga og lýsti yfir stuðningi við konurnar. Þá er til skoðunar hvort einhverjir hjá félaginu hafi orðið fyrir barðinu á Al Fayed og það óskaði eftir upplýsingum um slík mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×