Sport

Jason hélt að klefamenningin yrði grófari í Grims­by

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jason Daði Svanþórsson samdi við Grimsby í sumar. 
Jason Daði Svanþórsson samdi við Grimsby í sumar.  Vísir / Hulda Margrét

Knattspyrnumaðurinn Jason Daði Svanþórsson hefur það gott í Grimsby en hann var hetja liðsins í ensku D-deildinni um helgina.

Jason skoraði seinna mark Grimsby í 2-1 heimasigri á Bradford City. Jason kom sínu liði í 2-0 á 47. mínútu og á endanum var það markið sem skildi á milli liðanna. Bradford minnkaði muninn tólf mínútum fyrir leikslok.

„Það er auðvitað besta tilfinning í heimi að skora mörk þannig að þetta var eiginlega betra en ég átti von á ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ segir Jason í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.

Jason fór frá Blikum til félagsins í júlí og er hann fyrstu Íslendingurinn sem spilar fyrir félagið.

„Það kom mér eiginlega skemmtilega á óvart hversu vel þeir tóku á móti mér, og ekki endilega bara leikmennirnir sjálfir heldur allir í kringum klúbbinn,“ segir Jason sem er eini útlendingurinn í liðinu. Þarna er alvöru bresk menning og stundum er talað um nokkuð harða klefamenningu í slíkum liðum.

„Ég hélt að þetta yrði grófara, ég viðurkenni það alveg. Þeir eru allavega mjög skemmtilegir og ég hef gaman af þessu.“

Hann lék alls 82 deildarleiki með Blikum og skoraði 26 mörk. Fimm þeirra komu í Bestu deildinni í sumar. Hann fylgist vel með Blikunum í Bestu-deildinni og missir helst ekki af leik. Breiðablik er sem stendur í efsta sæti deildarinnar.

„Þeir eru að standa sig hrikalega vel og ógeðslega gaman að horfa á þá. Þeir eru jafnvel betri eftir að ég fór sem er frábært,“ segir Jason og hlær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×