Innlent

Tvö börn flutt á spítala eftir að hafa neytt kannabis-gúmmíbangsa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Engar upplýsingar liggja fyrir um líðan barnanna.
Engar upplýsingar liggja fyrir um líðan barnanna. Vísir/Vilhelm

Tvö börn voru flutt á Barnaspítalann Hringsins í gær eftir að í ljós kom að þau höfðu borðað gúmmíbangsa sem innihéldu THC, tetrahýdrókannabínól, sem unnið er úr kannabisplöntunni.

Frá þessu er greint í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um verkefni gærkvöldsins og næturinnar. Í tilkynningunnu eru engar frekari upplýsingar um málið.

Tilkynnt var um tvö vinnuslys.

Í öðru tilvikinu ók einstaklingur á rafmagnshjóli á bekk og var talinn fótbrotinn. Í hinu tilvikinu datt kona og fékk höfuðhögg.

Einn var handtekinn í annarlegu ástandi í miðborginni og vistaður í fangageymslu. Þá kom einstaklingur á lögreglustöðina á Hverfisgötu og framvísaði efnum sem talin eru fíkniefni.

Tilkynnt var um innbrot og þjófnað úr gámum í póstnúmerinu 110 og þjófnað úr verslun í Kópavogi.

Þá var einn ökumaður handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og tilkynnt um umferðarslys í 270, þar sem eignatjón varð en ekki slys á fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×