Skoðun

Við Hamingju­sama fólkið vs. Þau ó­hamingju­sömu

Ingibjörg Rósa Björnsdóttir skrifar

„Ég er með krabbamein. Ég er hamingjusöm.“ Þessar tvær fullyrðingar flutu inn í svefndrukkinn huga minn þar sem ég opnaði augun og teygði syfjulega úr mér einn kaldan janúarmorgun fyrir nokkrum árum, nokkrum dögum eftir greiningu. Þarna kom ég sjálfri mér á óvart, settist snöggt upp í rúminu og spurði sjálfa mig, steinhissa: „Hvernig get ég verið hamingjusöm ef ég er með krabbamein?“ Og þar með uppgötvaði ég að Hamingjan er ekki skilyrt við góða heilsu, nokkuð sem ég hafði ómeðvitað staðið í trú um fram að því.

„Þú átt ekkert ef þú hefur ekki heilsuna“ er setning sem ég hef oft heyrt í gegnum tíðina og þótt meiningin sé í grunninn jákvæð getur hún snúist gegn þeim sem minnst mega við því, þeim sem ekki hafa fulla heilsu. Jú, við ættum flest að bera meiri virðingu fyrir líkama okkar og vera þakklátari fyrir góða heilsu því við áttum okkur sjaldnast á þeim forréttindum að lifa í hraustum líkama fyrr en og ef við töpum þeim – og þarna tala ég af reynslu. Heilsan er okkur öllum mikilvæg og já, það getur verið auðveldara að upplifa vellíðan þegar við erum heilsuhraust, en það er varasamt að skilyrða Hamingjuna við heilsuna.

Því um leið og við gerum það setjum við samasemmerki milli vanheilsu og óhamingju og þá erum við, sem samfélag, komin í ógöngur. Hvað með fólk sem getur aldrei fengið fulla heilsu? Hvað með fólk með langvarandi og ólæknandi sjúkdóma, bæði líkamlega og andlega? Hvað með fólk með fötlun? Geta þau þá aldrei verið Hamingjusöm? Hvað með aldrað fólk sem horfir fram á þverrandi heilsu og getur aldrei orðið aftur jafnheilsuhraust og það eitt sinn var, erum við þá dæmd til að tapa Hamingjunni um leið og við verðum 67 ára?

Hættan er sú að við sem samfélag förum að líta á þessa einstaklinga sem enn einn hópinn – hóp sem getur aldrei orðið hamingjusamur vegna heilsuleysis – og því hættum við að leggja eins mikið á okkur til að styðja við Hamingju þeirra. Við teljum feykinóg að sjá fyrir grunnþörfum aldraðra og öryrkja, en þykir annars tímasóun og óþarfa áreynsla að aðstoða þennan „hóp“ við að lifa Hamingjusömu lífi. Við hættum að leggja okkur fram því við sjáum ekki tilgang með því, þetta fólk geti hvort eð er aldrei orðið Hamingjusamt.

En hver er undirstaða Hamingjunnar? Almennt er talað um þrjá mikilvæga stöpla til að viðhalda Hamingjunni. Að finnast við vera við stjórnvölinn í eigin lífi. Að hafa tilgang og finnast vera þörf fyrir okkur. Að hafa góð félagsleg tengsl og eiga samskipti við annað fólk daglega. Takið eftir að ekki er minnst sérstaklega á heilsuna sem slíka í þessum þremur stöplum. Þú þarft ekki að vera ung og heilsuhraust til að geta tikkað í þessi box. En vissulega hjálpar góð heilsa til, hún er bara alls ekki skilyrði fyrir því að vera Hamingjusöm.

Við þurfum því að vara okkur á því að útiloka stóran hluta samfélagsins frá Hamingjunni og gæta betur að hugsunarhætti okkar. Við getum öll verið Hamingjusöm og við eigum öll rétt á því að vera Hamingjusöm. Um leið og við samþykkjum þá hugsunarvillu að „sumir geti hvort eð er aldrei verið Hamingjusamir“ þá hættum við að reyna, hættum að sýna umhyggju, hættum að vera samfélag.

Höfundur er hamingjuþjálfi hjá Andanu Happiness Coaching.




Skoðun

Sjá meira


×