Fótbolti

Al­freð hættur með lands­liðinu: „Ó­trú­lega erfitt að kveðja“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alfreð hefur leikið sinn síðasta landsleik.
Alfreð hefur leikið sinn síðasta landsleik. Vísir/Hulda Margrét

Alfreð Finnbogason hefur lagt landsliðsskóna á hilluna. Þetta tilkynnti framherjinn á samfélagsmiðlum sínum í dag, mánudag.

Hinn 35 ára gamli Alfreð spilaði alls 73 A-landsleiki og skoraði í þeim 18 mörk, þar af mark Íslands gegn Argentínu á HM í Rússlandi sumarið 2018.

„Takk fyrir mig og þær frábæru minningar sem ég hef upplifað með íslenska landsliðinu síðustu 15 árin. Það er ótrúlega erfitt að kveðja eitthvað sem hefur verið svo stór hluti af lífi manns, en ég finn það að tíminn er réttur núna til að stíga til hliðar.“

Einnig var Alfreð hluti af íslenska liðinu sem fór langt á EM í Frakklandi sumarið 2016.

„Allar gleðistundirnar munu lifa með mér að eilífu, þar sem hápunktarnir voru auðvita að fara á EM 2016 og HM 2018 með vinum mínum. Upplifanirnar og ógleymanlegu augnablikin eru svo mörg, alveg eins og erfiðu tímanir sem er allt hluti af ferlinu sem mér þykir mjög vænt um.“

„Það er ekkert sem hefur gert mig eins stoltan á ferlinum eins og að spila fyrir Ísland. Hjartans þakkir til allra þjálfara, starfsmanna og leikmanna sem hafa verið hluti af reisunni. Risa þakkir til stuðningsmanna íslenska landsliðsins fyrir stuðninginn og minningarnar saman út um allan heim,“ segir Alfreð að endingu í færslunni sem sjá má hér að ofan.

Alfreð hefur komið um víðan völl á ferli sínum og spilað í Belgíu, Svíþjóð, Hollandi, Spáni, Grikklandi, Þýskalandi og Danmörku. Hann er í dag leikmaður Eupen sem spilar í B-deildinni í Belgíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×