Óvissustig almannavarna er enn í gildi á svæðinu en fundur verður um áframhaldið með Veðurstofunni klukkan tvö í dag. Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni segir hlaupið í rénun.
„Hlaupið er enn þá í gangi, það er hlaupvatn í Skálm og það mun vera í einhvern smá tíma í viðbót en vatnshæðin er mun lægri heldur en var áður. Þetta er svona nánast búið þannig séð. Svo er enn þá smávægilegt hlaup í Emstra og Markarfljóti.“
Hann segir að hlaupið í gær hafi verið óvenjustórt og í raun tvö hlaup í einu. Það líti út fyrir að vera stærra heldur en stóra hlaupið sem var í Múlakvísl árið 2011.Nokkrir skjálftar voru í Mýrdalsjökli í morgun en öllum óróa og skjálftavirkni á svæðinu sé lokið.
„Hvað tekur svo við vitum við náttúrlega ekki nákvæmlega, hvort þetta hafi einhver áhrif áfram næstu daga,“ segir Böðvar.
Tekur tíma fyrir rennsli að komast í eðlilegt horf
Vatnshæð og rafleiðni í Skálm hefur minnkað talsvert síðan í gær og dregur því úr áhrifum hlaupsins sem kom undan Sandfellsjökli í austanverðum Mýrdalsjökli. Engin merki sjást um hlaupvatn í Jökulsá á Sólheimasandi eða Múlakvísl, af því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.
Undir morgun mældust nokkrir skjálftar undir jöklinum, sá stærsti um 2,9 að stærð um klukkan 6. Engin breyting varð á óróa í kjölfarið.
Ef engin frekari skjálftavirkni eða hlaupórói mælist er ekki er von á frekari hlaupum undan Mýrdalsjökli að svo stöddu. Nokkrir dagar geta liðið þangað til rennslið í ánna Skálm kemst í eðlilegt horf miðað við árstíma, að sögn Veðurstofunnar. Má búast við því að virkni í Mýrdalsjökli haldist há með skjálftavirkni og tíðum minni jökulhlaupum í ár sem renna úr jöklinum, líkt og gerðist í kjölfar stóra hlaupsins sem var í Múlakvísl 2011.
Leita skýringa en engin merki um eldgos
Líkt og áður segir er um óvenjustórt hlaup að ræða á þessum slóðum en sérfræðingar segja erfitt að fullyrða um það að svo stöddu hvað olli því að svo mikið hlaupvatn kom undan Mýrdalsjökli.
„Það er þó ljóst að talsverð virkni hefur verið í norðurenda Kötluöskjunnar og olli því að hlaupvatn kom undan Mýrdalsjökli bæði vestan megin og austan megin. Á gervitunglamyndum sést að sig hefur orðið í þekktum hlaupkötlum á Mýrdalsjökli. Það er hins vegar óljóst hvað veldur því að þetta mikið hlaupvatn ryðst fram niður í Skálm á þetta skömmum tíma,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Miðað við fyrsta mat af umfangi hlaupsins í Skálm sé um margfalt meira magn vatns að ræða en í hefðbundnu hlaupi úr jöklinum. Engin merki sjáist í gögnum Veðurstofunnar sem bendi til að eldgos hafi orsakað jökulhlaup að þessu sinni.