Fótbolti

Håland segir leik­menn hafa verið of þreytta á EM

Siggeir Ævarsson skrifar
Erling Håland fær sér sæti eftir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, mögulega til að hvíla lúin bein eftir langt tímabil
Erling Håland fær sér sæti eftir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, mögulega til að hvíla lúin bein eftir langt tímabil vísir/Getty

Erling Håland fékk langt sumarfrí í ár meðan að margir af bestu leikmönnum heims tóku þátt í Evrópumeistaramótinu. Håland segir að þreyta leikmanna hafi haft augljós áhrif á frammistöðu þeirra á mótinu.

Håland, sem er staddur í New York í æfingaferð með Manchester City vakti máls á þessu á blaðamannafundi.

„Við sáum það öll á EM og bara almennt hversu þreyttir allir voru. Þú sást það á gæðunum og þú sást það meira að segja í andlitinu á fólki hversu þreyttir allir voru á fótbolta, ef það er  hægt að orða það þannig.“

Hann hélt áfram og spáði því að það sama yrði uppi á teningnum á komandi tímabili enda hafi margir leikmenn ekki fengið langt sumarfrí.

„Ég held að þú getir ekki verið einbeittur í hverjum einasta leik. Við getum reynt en það er erfitt þegar þú spilar yfir 70 leiki á ári.“

Þess má geta að Håland lék alls 45 leiki fyrir City á síðasta tímabili og svo bætast einhverjir landsleikir ofan á það. Hann á því eitthvað eftir í 70 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×