Handbolti

Króatar lentu í kröppum dansi gegn fyrrum læri­sveinum Dags

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dagur Sigurðsson er þjálfari króatíska karalandsliðsins í handbolta.
Dagur Sigurðsson er þjálfari króatíska karalandsliðsins í handbolta. Marco Steinbrenner/DeFodi Images via Getty Images

Króatíska karlalandsliðið í handbolta, undir stjórn Dags Sigurðssonar, lenti í kröppum dansi er liðið mætti Japan í fyrstu umferð riðlakeppninnar á Ólympíuleikunum í dag.

Dagur tók við króatíska liðinu fyrr á þessu ári, en hann var áður þjálfari japanska landsliðsins. Hann var því að mæta sínum fyrrverandi lærisveinum.

Jafnræði ríkti með liðunum framan af leik og lengi vel varð munurinn ekki meiri en tvö mörk. Í stöðunni 13-13 tók japanska liðið þó öll völd og skoraði síðustu fimm mörk fyrri hálfleiksins og staðan var því 18-13, Japan í vil, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Japanir héldu króatíska liðinu í skefjum lengi vel í síðari hálfleik og náði mest sex marka forskoti í stöðunni 23-17. Þá vöknuðu Króatar hins vegar loksins til lífsins og komust yfir í 25-24 þegar um átta mínútur voru til leiksloka.

Lokamínúturnar voru svo vægast sagt spennandi. Liðin skiptust á að hafa forystuna og Króatar fengu tækifæri til að komast yfir þegar um mínúta var til leiksloka. Þeir misnotuðu hins vegar sókn sína og því gátu Japanir stolið sigrinum á síðustu sekúndum leiksins.

Japanska liðið tók leikhlé þegar tæp hálf mínúta var eftir og staðan var jöfn, 29-29. Þeir fengu færi til að koma boltanum í netið, en klikkuðu, tóku frákastið og klikkuðu aftur. Króatar tóku á rás og náðu að koma boltanum í netið í þann mund sem tíminn rann út og niðurstaðan varð dramatískur 30-29 sigur Króatíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×