Svokölluðum dyrabjöllumyndavélum, eins og þeirri sem sést í sjónvarpsfréttinni hér að neðan, fer sífellt fjölgandi. Þá er eðlilegt að fólk spyrji sig hvað má, og hvað má ekki, í þessum efnum.
Á dögunum birti Presónuvernd úrskurð þar sem var ekki talið að notkun slíkrar myndavélar hefði brotið í bága við persónuverndarlög, en vélin var staðsett í dyrabjöllu utaná tvíbíyli, og sjónsvið hennar náði til sameiginlegs svæðis fyrir framan húsið. Staðgengill forstjóra Persónuverndar segir slíkum málum fara fjölgandi.
„Þau byrjuðu að koma inn á okkar borð fyrir svona þremur, fjórum árum og við gerum ráð fyrir að þeim eigi eftir að fjölga,“ segir Helga Sigríður Þórhallsdóttir, staðgengill forstjóra hjá Persónuvernd.
Miklu máli skipti hvernig búnaðurinn er notaður.
„Við horfum til dæmis í það hvort upptakan er alltaf í gangi, eða hvort hún fer í gang þegar einhver gengur fram hjá, eða hvort upptakan fer bara í gang þegar einhver hringir bjöllunni.“
Stöðug vöktun krefst merkinga
Fari upptakan aðeins í gang þegar bjöllu er hringt gildi persónuverndarlög almennt ekki. Sé upptaka alltaf í gangi gildi sömu sjónarmið og um eftirlitsmyndavélar almennt.
„Þessi sömu sjónarmið geta gilt líka ef hún fer alltaf í gang þegar hreyfiskynjari virkjast. Þá þarf til dæmis að huga að merkingum, og mikilvægt að huga að því líka hvernig myndavélin er stillt, þannig að vöktunin nái ekki út fyrir lóðamörk til dæmis,“ segir Helga Sigríður.
Persónuverndarlög gilda almennt ekki heldur þegar persónuupplýsingar eru unnar til einkanota. Öðru máli gildi þegar fólk birtir upptökur opinberlega, til að mynda þegar auglýst er eftir innbrotsþjófum á samfélagsmiðlum.
„Slíkar myndbirtingar geta fallið undir persónuverndarlögin, jafnvel þó að vöktunin geri það ekki. Þannig að við mælum með frekar að fólk sendi það efni til lögreglu.“