„Margir eru orðnir ansi lunknir við að bera kennsl á svikapósta en oft þarf að rýna í þá til að átta sig á hvers kyns er,“ er haft eftir Jökli í fréttatilkynningu frá Póstinum. Svikapóstarnir séu þess eðlis að fólk er beðið um að smella á vefslóð og setja inn greiðsluupplýsingar. Slík skilaboð komi aldrei frá Póstinum.
Jökull bendir fólki á að til að sjá hvort raunverulega sé von á sendingu sé hægt að skrá sig inn á Mínar síður á vef Póstsins eða í gegn um Póstsforritið.
Besta leiðin til átta sig á því hvort um sé að ræða svikapóst eða ekki sé að skoða netfangið sem pósturinn er sendur úr. Tölvupóstur sem kemur frá Póstinum endi á @postur.is eða @posturinn.is.
Hafi einhver slysast til að smella á hlekk í svikapósti mælir Jökull með að hafa strax samband við viðskiptabankann sinn. Svo væri vel þegið að viðkomandi áframsendi svikapóstinn á oryggi@posturinn.is. Þannig sé líklegra að Pósturinn geti spornað gegn netsvindlinu.