Víkingur hefur ekki fagnað góðu gengi undanfarið. Liðið féll út með dramatískum hætti gegn Shamrock Rovers þar sem vítaspyrna fór forgörðum í uppbótartíma, sneri svo heim í Bestu deildina og tapaði 1-0 á móti KA.
„Gríðarlegt svekkelsi, eins og menn sjá, en mér fannst við spila vel á móti KA þó úrslitin hafi ekki verið góð. Þannig að við þurfum bara að byggja ofan á þá spilamennsku með fleiri mörkum.“

Það er viss lærdómur sem Aron dregur úr síðasta einvígi en hann gerir ráð fyrir öðruvísi andstæðingi í kvöld.
„Ég held að þetta verði aðeins öðruvísi leikur. Við erum að mæta liði sem er á undirbúningstímabili, við þurfum að keyra tempóið hátt og gera okkar besta til að klára þetta. Það er erfitt fyrir mig að segja [hversu góðir þeir eru] en við erum búnir að skoða þá vel og það er fullt af fínum spilurum þarna. Þurfum bara að vera klárir í þetta og ekkert vanmat.“
Sjálfur er hann að snúa til baka úr meiðslum en segist allur vera að koma til og er nokkuð sigurviss fyrir leik kvöldsins.
Leikur Víkings gegn Egnatia hefst klukkan 18:30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi og beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 5.