Eins og Vísir hefur þegar greint frá hefur sýslumaður hótað að fella söfnuðinn af skrá yfir trúfélög.
Það hefur hann í hyggju að gera eigi síðar en 10. ágúst næstkomandi hafi ekki verið gerðar þær ráðstafanir sem til þarf svo ljóst sé að félagið sé starfhæft. Og að umboð stjórnarinnar og forstöðumanns félagsins þurfi að vera skýrt.
Fer fram á að greiðslur á sóknargjöldum verði felldar niður
Að auki segir í bréfi sem Halldór Þormar Halldórsson ritar fyrir hönd sýslumanns og dagsett er 25. júlí:
„Að framan rituðu telur sýslumaður ljóst að verulegur vafi er uppi um starfshætti félagsins og umboð þeirrar stjórnar sem kjörin var árið 2019. Vegna þess hefur þess verið farið á leit við Fjársýslu ríkisins að greiðslur á sóknargjöldum til félagsins verði felldar niður frá og með deginum í dag, enda er um almannafé að ræða.“
KSDA hefur svarað, sent afrit til fjársýslunnar og er ekki að sjá að þeim sé brugðið. Í bréfi sem Guðrún S. Sigríðardóttir fyrir hönd Óskars Sigurðssonar hrl. á lögmannastofunni LEX, fyrir hönd Kirkju sjöunda dags aðventista er þess meðal annars óskað að þetta erindi sýslumanns verði einfaldlega afturkalla.
Vilja að sýslumaður afturkalli erindið
„Þar sem ekki eru uppfyllt lagaleg skilyrði fyrir því að krefja kirkjuna um úrbætur og fella úr skráningu trúfélagsins á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 108/1999, svo sem rekið hefur verið.“
Þá er þess jafnframt óskað að sýslumaður afturkalli erindi sitt til Fjársýslu ríkisins þar sem farið var fram á niðurfellingu sóknargjalda til kirkjunnar.
„Verði ekki fallist á beiðni um afturköllun er þess óskað að sýslumaður framlengi þann frest sem hann setti kirkjunni til úrbóta í erindi sínu þannig að fresturinn nái fram yfir boðaðan síðari hluta aðalfundar 8. september næstkomandi.“
Samkvæmt heimildum Vísis mun Halldór Þormar svara þessu erindin á næstu tveimur dögum.