Fótbolti

„Tvö bestu liðin leika til úr­slita“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dani Olmo hefur skorað þrjú mörk á mótinu og berst við Harry Kane um gullkskóinn.
Dani Olmo hefur skorað þrjú mörk á mótinu og berst við Harry Kane um gullkskóinn. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Spænski miðjumaðurinn Dani Olmo segir tvö bestu lið Evrópumótsins leika til úrslita á sunnudaginn þegar Spánn mætir Englandi. Það sé mikilvægt að halda einbeitingu sama hver staðan er því enska liðið getur snúið leikjum við. 

„Mér finnst tvö bestu liðin leika til úrslita. Þetta er bara eins og alltaf á stórmótum, liðið sem vinnur flesta leiki kemst í úrslit, það breytist ekkert“ sagði Olmo á blaðamannafundi BBC í dag. 

Spánn er talið sigurstranglegri enda hefur liðið unnið alla sína leiki á mótinu án þess að fara í vítaspyrnukeppni og spilað heilt yfir stórkostlega.

„Við þurfum að halda fókus, einbeita okkur að því sem við höfum verið að gera vel og því sem kom okkur hingað. Halda sama dugnaði og gera okkar besta.“

England er þó enginn aukvisi og þrátt fyrir að hafa ekki heillað mannskapinn með leiftrandi léttri spilamennsku á mótinu hefur liðið knúið fram góð úrslit og stigið upp á ögurstundu.

„England hefur sýnt það hingað til að þeir geta snúið leikjum við. Þeir lentu undir í undanúrslitum, Bellingham skoraði úr hjólhestaspyrnu á lokamínútunni í 16-liða úrslitum. Þetta er lið sem gefst aldrei upp og við þurfum að mæta með fulla einbeitingu. Skiptir ekki máli hvort við séum yfir eða undir, við verðum að spila okkar leik, hvort sem það verður í 90 eða 120 mínútur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×