Fótbolti

Nistelrooy snúinn aftur á Old Trafford eftir á­tján ára fjar­veru

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ruud van Nistelrooy raðaði inn mörkum fyrir Manchester United á sínum tíma.
Ruud van Nistelrooy raðaði inn mörkum fyrir Manchester United á sínum tíma. Tom Purslow/Manchester United via Getty Images

Ruud van Nistelrooy hóf í dag störf sem aðstoðarþjálfari Manchester United, átján árum eftir að hann yfirgaf félagið sem leikmaður.

Nistelrooy lék á sínum tíma með United í ensku úrvalsdeildinni og raðaði inn mörkum fyrir liðið. Á fimm ára tímabili lék hann 150 deildarleiki fyrir félagið og skoraði í þeim 95 mörk. Alls lék hann 219 leiki í öllum keppnum fyrir United, skoraði 150 mörk og vann ensku deildina, enska bikarinn, enska deildarbikarinn og Samfélagsskjöldinn.

Hann gekk svo til liðs við Real Madrid árið 2006 áður en hann lagði skóna á hilluna eftir stutt stopp hjá Hamburger SV í Þýskalandi og síðar Málaga á Spáni.

Nokkrum árum eftir leikmannaferilinn snéri Nistelrooy sér að þjálfun og hefur hann þjálfað 19 ára lið PSV, Jong PSV og síðast aðallið félagsins. Hann var orðaður við stöðu knattspyrnustjóra hjá Burnley, en ákvað frekar að snúa aftur til Manchester United þar sem hann verður Erik ten Hag til aðstoðar.

Nistelrooy var mættur á æfingasvæði United í dag til að taka þátt í fyrsta degi nýs undirbúningstímabils. United hefur þó ekki opinberlega kynnt endurkomu Nistelrooy til félagsins, enda bíður félagið enn eftir því hann fái samþykkt atvinnuleyfi.

Ásamt Nistelrooy mun Hollendingurinn Rene Hake taka að sér stöðu aðstoðarþjálfara, en hann vann með Ten Hag hjá Ajax á sínum tíma. Hake kemur til félagsins frá GO Ahead Eagles þar sem hann var þjálfari íslenska landsliðsmannsins Willums Þórs Willumssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×