Gordon mætti á æfingu enska liðsins í dag með sár á hökunni. Hann fékk það þegar hann datt af hjóli þegar hann gerði sér ferð um æfingasvæðið í Blankenhain í Þýskalandi þar sem enska liðið dvelur.
Gordon er ekki fyrsti leikmaðurinn á EM sem lendir í hjólaóhappi. Tékkinn Michal Sadilek missti til að mynda af mótinu eftir að hann datt af hjóli og fékk stóran skurð á löppina.
Gordon kom inn á sem varamaður á 89. mínútu þegar England gerði markalaust jafntefli við Slóveníu í lokaleik sínum í C-riðli. Englendingar unnu riðilinn og mæta Slóvökum í sextán liða úrslitunum á sunnudaginn.
Hinn 23 ára Gordon leikur með Newcastle United. Hann hefur spilað fjóra A-landsleiki, alla á þessu ári.
Á síðasta tímabili skoraði Gordon ellefu mörk í 35 leikjum fyrir Newcastle í ensku úrvalsdeildinni.