Á 67. mínútu lenti Varga í harkalegu samstuði við Angus Gunn, markvörð Skota, og lá óvígur eftir. Um sjö mínútur tók að huga að Varga sem var á endanum borinn af velli og fluttur á sjúkrahús í Stuttgart. Hann er kinnbeinsbrotinn en líðan hans er stöðug.
Szoboszlai var fljótur að átta sig á að ekki var allt með felldu hjá Varga eftir samstuðið við Gunn. Honum fannst sjúkraliðar á vellinum vera full seinir að bregðast við, hljóp í átt að þeim, náði í börur og dreif þær inn á völlinn.
„Ég var einn af þeim fyrstu á vettvang,“ sagði Szoboszlai eftir leikinn sem Ungverjar unnu, 1-0.
„Ég var í áfalli, lagði hann til hliðar sem er það besta sem þú getur gert í stöðu sem þessari. Hann fékk ekki nægt súrefni. Ég hef ekki hugmynd um hverjar reglurnar eru, hvort fólki er heimilt að hlaupa inn á völlinn ef við þurfum hjálp.“
Aðspurður fannst Szoboszlai sjúkraliðarnir vera lengi á vettvang.
„Mér fannst það ekki. Þú sást að þetta var mikið vandamál. Ég hljóp og hver sekúnda skiptir máli. Þetta er ekki mín ákvörðun en við verðum að gera eitthvað í þessu. Við verðum að gera þetta hraðar, miklu hraðar,“ sagði Liverpool-maðurinn sem felldi tár þegar hann sá hvernig fyrir Varga var komið.
Ungverjar enduðu í 3. sæti A-riðils með fjögur stig. Enn liggur ekki fyrir hvort það dugir ungverska liðinu til að komast í sextán liða úrslit mótsins.
Ef Ungverjar komast áfram verður Varga ekki með þeim í útsláttarkeppninni. Hann er sem fyrr sagði kinnbeinsbrotinn og eftir leikinn gegn Skotum staðfesti landsliðsþjálfarinn Marco Rossi að þátttöku hans á EM væri lokið.