Þingið hefst á umræðu undir liðnum störf þingsins þar sem á þriðja tug þingmanna hafa óskað eftir því að fá að taka til máls. Hiti var á þinginu í gær þegar vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar á hendur Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra var felld.
Formenn flokka náðu samkomulagi um þinglokasamninga fyrir miðnætti í gær og stefnt er að þinglokum á morgun. Samkvæmt heimildum fréttastofu munu lögreglulögin fara í gegn ásamt frumvarpi um breytingar á örorkulífeyriskerfinu og frumvarpi um mannréttindastofnun.
Frumvörp um virkjanakosti í vindorku og slit á ÍL-sjóði verði hins vegar ekki afgreidd ásamt öðrum málum.
Þingfundur hefst klukkan hálf ellefu og eru atkvæðagreiðslur um fjölda mála á dagskrá.