Innlent

Tók 38 prósent bótanna og þarf að endur­greiða hundruð þúsunda

Árni Sæberg skrifar
Ómar þarf að greiða konunni rúma milljón króna.
Ómar þarf að greiða konunni rúma milljón króna. Vísir/Vilhelm

Ómar R. Valdimarsson lögmaður þarf að greiða fyrrverandi umbjóðanda sínum 400 þúsund krónur vegna óhæfilegrar þóknunar sem hann tók fyrir lögmannsþjónustu vegna uppgjörs slysabóta. Eftir fullnaðaruppgjör við Ómar hélt konan aðeins 62 prósentum af bótum sem vátryggingafélag greiddi henni.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness, sem kveðinn var upp í dag, segir að konan hafi krafist þess að Ómar greiddi henni rúmlega 1,4 milljónir króna en til vara 1,1 milljón króna. Málið hafi varðað ágreining um hvort endurgjald sem Ómar fékk úr hendi konunnar vegna lögmannsstarfa í hennar þágu hafi verið sanngjarnt og eðlilegt

Reiknaði endurgjaldið ekki rétt

Í niðurstöðukafla dómsins segir að konan hafi orðið fyrir slysi í desember árið 2019 og leitað til Ómars og óskað eftir aðstoð hans við heimtu bóta úr hendi Vátryggingafélags Íslands hf. vegna afleiðinga slyssins. 

Hún hafi í kjölfarið fengið greiddar bætur úr hendi félagsins að fjárhæð 2.837.934 krónur auk 296.653 króna lögmannsþóknunar. Í fullnaðaruppgjöri konunnar og Ómars, sem undirritað hafi verið í kjölfarið, hafi verið gengið út frá því að Ómar fengi, auk fyrrgreindrar 296.653 króna lögmannsþóknunar, fimmtán prósent af þeirri fjárhæð sem hann hafði fyrir hönd konunnar krafið félagið um auk virðisaukaskatts. Ómar hafi þannig fengið greiddar samtals 1.193.827 krónur í lögmannsþóknun vegna starfa sinna í þágu konunnar.

Sem áður segir krafðist konan 1,4 milljóna króna í endurgreiðslu, sem glöggir lesendur sjá að er hærri upphæð en hún hafði greitt. Í dóminum segir að konan hafi ranglega reiknað með því að Ómar hafi haldið eftir 1.932.827 krónum og út frá þeirri forsendu dregið þá ályktun að endurgjald hans hafi verið 61,66 prósent af bótafjárhæðinni.

„Sú ályktun fær samkvæmt framangreindu ekki staðist enda fól endurgjald stefnda í sér minna hlutfall eða um 38% af bótafjárhæð stefnanda.“

Byggði á sama úrskurði og annar umbjóðandi Ómars

Í dóminum segir að konan hafi að miklu leyti byggt kröfugerð sína á úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna þar sem mælt hafi verið fyrir um hæfilega þóknun til handa Ómars í máli annars umbjóðanda hans.

Í því máli hafi Ómar viðurkennt að hafa í uppgjöri miðað við nýja gjaldskrá í stað þeirrar sem gilt hafi þegar aðilar undirrituðu umboð Ómari til handa. Hafi úrskurðarnefndin í því máli komist að því að endurgjald til stefnda hafi verið ósanngjarnt í skilningi laga um lögmenn og mælt fyrir um að rétt endurgjald ætti að miða við að Ómar fengi lögmannsþóknun sem vátryggingafélagið hafði greitt auk 75 prósent álags á þá fjárhæð ásamt virðisaukaskatti. 

Konan hafi byggt á því að aðstæður í máli þessu séu þær sömu, enda hafi einungis nokkrir mánuðir liðið á milli þess sem umboð var undirritað í umræddu máli og þess að hún undirritaði umboð í máli þessu.

Konan er ekki fyrsti umbjóðandi Ómars sem byggir á téðum úrskurði. Hann var dæmdur til að greiða fyrrverandi umbjóðanda sínum 490 þúsund krónur í mars síðastliðnum eftir að umbjóðandinn hafði lesið um hann í fjölmiðlum.

Fyrirkomulagið ekki samrýmanlegt lögum

Í dóminum segir að þrátt fyrir að konan hafi reiknað endurgjaldið rangt hafi þurft að meta hvort þóknun Ómars hafi verið hæfileg.

Í því tilliti væri til þess að líta að í málinu væri engum gögnum fyrir að fara um gjaldskrá Ómars á þeim tíma sem hann starfaði að máli konunnar. Liggi þannig ekkert fyrir um að gjaldskrá Ómars hafi verið í samræmi við þóknunina sem hann áskildi sér eða að aðilar hafi samið með þeim hætti. 

Að mati dómsins verði almennt að ganga út frá því að þóknun sem miðar við tiltekna prósentu af fjárhæð lýstrar kröfu í stað eiginlegrar bótafjárhæðar teljist óhæfileg í skilningi laga um lögmenn. Slík þóknun hafi enda takmörkuð tengsl við árangurstengingu líkt og þá sem fjallað er um í lögunum og setji umbjóðanda lögmanns í þá stöðu að hinn síðarnefndi hafi sjálfur fjárhagslega hagsmuni af því að fjárhæð lýstrar kröfu sé sem hæst. 

Þótt ekki verði útilokað að fjárhæðin sem Ómar áskildi sér kunni að hafa verið réttlætanleg út frá tímagjaldi liggi fyrir að ekki hafi verið um slíkt fyrirkomulag að ræða heldur hafi þóknunin byggt alfarið á tilteknu hlutfalli þeirrar kröfu sem Ómar lýsti á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf. 

Það fyrirkomulag væri að mati dómsins ósamrýmanlegt fyrrgreindum lögum.

Bar fyrir sig að hafa unnið í fleiri málum

Ómar hafi byggt á því að þóknunin hefði ekki einungis tekið mið af aðstoð við konuna vegna umferðarslyssins heldur einnig öðrum málum.

Ómar hafi í því sambandi lagt fram yfirlýsingu manns 2. nóvember 2023, sem ætti að hafa setið fund aðila þar sem gengið var frá uppgjöri, þar sem fram kæmi að konunni hefði verið gert ljóst að um væri að ræða greiðslu til Ómars vegna þriggja aðskildra mála.

Vegna þessarar málsástæðu Ómars er á það bent af hálfu dómsins að í uppgjöri aðilanna sé í engu vikið að því að endurgjald Ómars taki mið af öðrum og óskyldum málum konunnar. Þvert á móti sé þar skýrlega miðað við að um sé að ræða uppgjör vegna bóta frá Vátryggingafélagi Íslands hf. og endurgjald reiknað sem hlutfall af þeim bótum sem konan fékk á grundvelli matsgerðar vegna umferðarslyssins en ekki vegna annarra mála. 

Loks væri til þess að líta, við mat á sönnunargildi fyrrgreindrar yfirlýsingar, sem lögð er fram af hálfu Ómars eftir að málið var höfðað og án þess að sá sem hana undirritar hafi komið fyrir dóminn, að yfirlýsingin sé dagsett tveimur árum eftir umræddan fund 19. október 2021 eða 2. nóvember 2023. 

Samkvæmt lögum um meðferð einkamála skeri dómari úr því hverju sinni eftir mati á þeim gögnum sem fram hafa komið hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð, enda bindi fyrirmæli laga hann ekki sérstaklega um mat í þessum efnum. 

„Að mati dómsins verður að skoða umrædda yfirlýsingu í framangreindu ljósi og þykir hún ekki trúverðugt gagn til stuðnings því að uppgjör aðila hafi miðað við vinnu stefnda í öðrum málum en þeim sem vörðuðu umrætt umferðarslys.“

Borgar milljón

Í dóminum segir að það hafi verið mat dómsins að Ómari hafi ekki tekist sönnun þess að umfang starfa hans í þágu konunnar hafi réttlætt að taka 38 prósent af bótafjárhæð hennar í þóknun. Þóknun Ómars væri samkvæmt þessu í ósamræmi við lög um lögmenn og því ekki skuldbindandi fyrir konuna.

Af hálfu Ómars hafi verið byggt á því að konan hafi tapað rétti sínum til endurgreiðslu fyrir sakir tómlætis, enda hafi tvö ár liðið frá fullnaðaruppgjöri og þar til hún krafði hann um greiðslu.

„Í þessu sambandi er til þess að líta að stefnandi, sem er ólöglærður einstaklingur, var í samskiptum við lögmann sem útbjó bæði umboð og uppgjör aðilanna. Verður að fallast á það með stefnanda að réttlætanlegt sé að hún hafi, fyrst eftir að hún varð þess áskynja í kjölfar fréttaflutnings að stefndi hafði fengið á sig athugasemdir vegna uppgjörs í málum annarra umbjóðenda, mátt gera sér grein fyrir að uppgjör hennar og stefnda kynni að hafa verið óhæfilegt,“ segir í dóminum.

Því var það niðurstaða héraðsdóms að lækka þóknun Ómars um 400 þúsund krónur að álitum. Hann var dæmdur til að greiða konunni þær 400 þúsund krónur, með dráttarvöxtum, og 600 þúsund krónur af málskostnaði konunnar.


Tengdar fréttir

Kæra Ómar til lögreglu og kvarta til siðanefndar og Persónuverndar

Ungt par hefur ákveðið að kæra lögmanninn Ómar R. Valdimarsson vegna birtingar hans á viðkvæmum persónuupplýsingum um það á samfélagsmiðlum. Ómar birti tölvupóstsamskipti sín við parið á Facebooksíðu lögmannsstofu sinnar vegna deilu um störf hans í flugbótamáli fólksins.

Segir lesskilningi fara hrakandi og baunar á formanninn

Ómar R. Valdimarsson, lögmaður og eigandi Flugbóta.is, gefur lítið fyrir gagnrýni á störf hans þegar mál var höfðað fyrir hönd ungra hjóna, að því er virðist að þeim forspurðum. Máli sínu til stuðnings birtir hann tölvupóstsamskipti við umbjóðendur sína opinberlega á Facebook.

Kröfðust þegar greiddra bóta og fá feitan reikning

Ungt par sem höfðaði mál til heimtu staðlaðra skaðabóta frá ítölsku flugfélagi situr uppi með 350 þúsund króna málskostnaðarreikning. Flugfélagið hafði þegar greitt parinu bæturnar og gott betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×