Innlent

Jó­dís segir þingið þjakað af kven­fyrir­litningu

Jakob Bjarnar skrifar
Jódís sagðist hafa áhyggjur af kvenréttindamálum, konur í áhrifastöðum væru of fáar og þær yrðu fyrir aðkasti.
Jódís sagðist hafa áhyggjur af kvenréttindamálum, konur í áhrifastöðum væru of fáar og þær yrðu fyrir aðkasti. vísir/vilhelm

Jódís Skúladóttir Vinstri grænum vill meina að Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra hafi mátt sæta kvenfyrirlitningu, ítrekað hafi verið talað niður til hennar og sagt að Bjarni Benediktsson réði öllu. Þær raddir hafi nú þagnað.

Jódís tók til máls í dagskrárliðnum Störf þingsins og hún gerði stöðu kvenna að umfjöllunarefni. Tilefnið er 19. júní eða kvenréttindadagurinn en þá 1915 fengu konur, og reyndar karlar sem minna mega sín, kosningarétt. Jódís sagði að horfa þyrfti á stóru myndina. Hún sagði bakslag í réttindabaráttu minnihlutahópa, sem tengist.

Jódís hélt því fram í þingræðu að ítrekað hafi verið talað niður til Katrínar, um að hún réði ekki heldur væri það Bjarni.vísir/vilhelm

„Ég hef af því sérstakar áhyggjur að ég upplifi að við stöndum í stað þegar kemur að konum í áhrifastöðum. Þær eru of fáar og þær verða fyrir aðkasti. Við sjáum það að orðræðan er öðruvísi, það er bæði hér inni í þessum þingsal sem og á samfélagsmiðlum og alls staðar í samfélaginu,“ sagði Jódís og gerði hlé á máli sínu.

„Mikið var rætt um það þegar fyrrverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sat í því embætti. Ítrekað var talað niður til hennar, um að hún réði ekki heldur væri það fjármálaráðherra sem öllu réði. Ég get ekki litið á það örðu vísi en kvenfyrirlitningu því sú umræða þagnaði þegar karlar setjast í báða stóla.“

Jódís sagði að allir þyrftu að vera meðvitaðir um hvernig þeir tali um konur í okkar samfélagi.

„Það endurspeglar þau viðhorf sem komandi kynslóðir bera til kvenna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×