Sport

Mcllroy missti sigur úr greipum sér og DeChambeau vann opna banda­ríska

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Spennan var gríðarleg eftir að Mcllroy klikkaði á einföldu pútti en DeChambeau stóðst pressuna og stóð uppi sem sigurvegari
Spennan var gríðarleg eftir að Mcllroy klikkaði á einföldu pútti en DeChambeau stóðst pressuna og stóð uppi sem sigurvegari Gregory Shamus/Getty Images

Bryson DeChambeau endaði sex höggum undir pari og vann opna bandaríska meistaramótið í golfi eftir afar dramatískan lokadag. 

DeChambeau átti frábæran gærdag og var með þriggja högga forystu þegar hringurinn hófst en spilaði ekki eins vel í dag.

Forystan færðist formlega til Rory Mcllroy þegar DeChambeau þrípúttaði á 14. holu.

Pressan virtist ná til Mcllroy sem skollaði 15. og 16. holu en þetta var í fyrsta sinn á mótinu sem hann fór tvær holur í röð yfir pari.

DeChambeau átti frábært upphafshögg á 17. holu en tókst ekki að setja niður fimm metra pútt fyrir fugl og forystu.

Spennan var því gríðarleg á 18. holunni. Rory Mcllroy var á undan og horfði á eftir slöku upphafshöggi DeChambeau fljúga utanbrautar en klikkaði sjálfur á sáraeinföldu pútti. Hreinlega grátlegur endir fyrir Norður-Írann. 

DeChambeau tók þannig eins höggs forystu en var sjálfur í mjög erfiðri stöðu utan brautarinnar. Boltinn lá við trjárætur, kylfingurinn þurfti að beygja sig langt niður í sveifluna og boltinn endaði í sandgryfju fjörtíu metra frá.

Þá átti DeChambeau algjört draumahögg og setti sjálfan sig upp til sigurs.

Spennan var gríðarleg þegar hann stillti upp og setti svo niður stutt pútt til sigurs.

DeChambeau stóðst pressuna og fagnaði sigri á mótinu í annað sinn á ferlinum en tíu ára bið Mcllroy eftir risamótstitli lengist enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×