Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þar segir að mikilvægt sé að fylgjast reglulega með gasmengunarspá. Í dag og á morgun gerir veðurspá ráð fyrir norðanátt. Gasmengun berst því til suðurs og hennar gæti orðið vart í Grindavík. Enn er talsverð óvissa með magn gastegunda frá gosstöðvunum.
Hættumat hefur verið uppfært í ljósi þróunar á eldgosinu og veður- og gasdreifingarspár. Hættumat er að mestu óbreytt en svæði 7 hefur verið fært af gulu upp í appelsínugult vegna mögulegrar gasmengunar.

Gögn sem Jarpvísindastofnun Háskólans birti frá yfirstandandi eldgosi sýna að efnasamsetning kvikunnar sem nú kemur til yfirborðs sé ólík þeirri sem hefur komið upp í síðustu fjórum eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni, en líkist kvikunni frá byrjun eldgossins í Geldingadölum 2021.
Niðurstöðurnar séu merki um að kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé að breytast.

„Að svo stöddu er ekki hægt meta nákvæmlega hvers konar breytingar eru í gangi, en á næstunni verður fleiri gögnum safnað og þau rýnd til að reyna að varpa ljósi á þær,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Enn er virkni í einum gíg sem helst nokkuð stöðug og hraun rennur að mestu til norðvesturs.