Fótbolti

„Við erum búnir að skrifa okkur í sögu­bækurnar“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Phil Foden átti frábært tímabil með Manchester City.
Phil Foden átti frábært tímabil með Manchester City. Michael Regan/Getty Images

Enski landsliðsmaðurinn Phil Foden lauk frábæru tímabili í ensku úrvalsdeildinni með tveimur mörkum er lokaumferðinni sem fram fór í gær.

Foden átti vægast sagt gott tímabil með Manchester City sem tryggði sér sinn fjórða Englandsmeistaratitil í röð með 3-1 sigri gegn West Ham í gær. Ásamt því að standa uppi sem enskur meistari var Foden valinn besti leikmaður tímabilsins. Hann skoraði 19 mörk fyrir City og lagði upp önnur átta fyrir liðsfélaga sína.

Eins og áður segir var þetta fjórða árið í röð sem City verður Englandsmeistari, en engu öðru liði hefur tekist að vinna deildina fjórum sinnum í röð.

„Það er svo erfitt að reyna að finna orðin yfir það sem við gerðum í dag,“ sagði Foden eftir að titillinn var í höfn í gær.

„Við eru búnir að skrifa okkur í sögubækurnar. Það er ekkert annað lið sem hefur gert þetta. Þú sérð hvað þetta skiptir stuðningsmennina og okkur miklu máli. Við erum búnir að vinna allt árið að þessu augnabliki og þetta er mögnuð tilfinning sem við fáum að deila með stuðningsmönnunum.“

„Nú getum við sagt að við vorum fyrsta liðið til að gera þetta. Ég er orðlaus.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×