Fótbolti

Óskar Hrafn hættur hjá Haugesund

Aron Guðmundsson skrifar
Óskar Hrafn tók við Haugesund fyrir tímabilið en er nú hættur þjálfun liðsins
Óskar Hrafn tók við Haugesund fyrir tímabilið en er nú hættur þjálfun liðsins Mynd: Haugesund FK

Óskar Hrafn Þorvaldsson er hættur sem þjálfari norska úrvalsdeildarfélagsins FK Haugesund. Frá þessu greinir félagið í yfirlýsingu nú í morgunsárið.

Um ákvörðun Óskars Hrafns er að ræða en félagið segir Íslendinginn hafa tjáð sér það í gær að hann hygðist láta af störfum hjá félaginu. Sjálfur vildi Óskar Hrafn ekki tjá sig um viðskilnaðinn við Haugesund í samtali við Vísi er eftir því var leitað. 

Óskar Hrafn var ráðinn þjálfari Haugesund í október á síðasta ári og stýrði hann liðinu í alls sjö leikjum. Félagið hefur nú leit að nýjum þjálfara en Óskar skilur við liðið í 13.sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

„Við létum okkur hlakka til góðs samstarfs til lengri tíma en hlutirnir fara ekki alltaf eins og maður áætlar. Við þökkum honum fyrir sitt framlag,“ segir í yfirlýsingu Haugesund. 

Áður en að Óskar Hrafn tók við þjálfun Haugesund hafði hann stýrt liði Breiðabliks yfir nokkurra ára skeið við góðan orðstír og undir hans stjórn var liðið meðal annars Íslandsmeistari árið 2022 og komst svo alla leið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu, fyrst íslenskra karlaliða á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×