Í dag var dregið um það hvaða lið fá seinni leikinn á heimavelli í úrslitaleikjum EHF-bikarsins.
Valsmenn urðu um helgina fyrsta íslenska liðið í 44 ár til að komast í úrslitaleik í Evrópukeppni félagsliða í handbolta. Þeir höfðu ekki heppnina með sér í þessum drætti í dag.
Valur kom á undan upp úr pottinum. Fyrri leikurinn fer því fram á heimavelli Vals en sá síðari á heimavelli gríska félagsins Olympiacos.
Valsmenn komust áfram í úrslitaleikinn með því að vinna báða leiki sína á móti rúmenska félaginu CS Minaur Baia Mare. Sá fyrri vannst með átta mörkum á Hlíðarenda og sá síðari með sex mörkum í Rúmeníu.
Valsmenn unnu því 66-52 samanlagt á meðan gríska liðið Olympiacos vann 67-60 samanlagt á móti ungverksa félaginu FTC-Green Collect í sinni undanúrslitaviðureign.
Valsmenn hafa unnið alla tólf leiki sína í keppninni á þessu tímabili. Þeir hafa slegið út tvö rúmensk félög, eitt frá Serbíu, eitt frá Úkraínu, eitt frá Eistlandi og eitt frá Litháen.
Valsmenn áttu seinni leikinn á heimavelli í bæði átta liða úrslitunum (á móti CSA Steaua Bucuresti frá Rúmeníu) og 32 liða úrslitunum (á móti Motor frá Úkraínu). Í fyrstu tveimur umferðunum spilaði Valsliðið báða leikina á útivelli.
Í undanúrslitunum og sextán liða úrslitunum tryggði Valur sig áfram á útivelli og þeir þurfa nú að endurtaka leikinn ætli þeir sér þennan titil.
Fyrri leikurinn fram af þessum sökum fram á Íslandi helgina 18. til 19. maí en seinni leikurinn í Grikklandi 25. til 26. maí.