Fyrstu umræðu um frumvarp matvælaráðherra til heildarlöggjafar um lagareldi lauk á Alþingi í gær og frumvarpinu vísað til atvinnuveganefndar, sem mun taka það fyrir á fundi sínum á morgun. Frumvarpið nær til sjókvíaeldis, landeldis og hafeldis - og hefur reynst afar umdeilt. Einkum hefur gagnrýni lotið að því að afhenda eigi fiskeldisfyrirtækjum firði til sjókvíaeldis ótímabundið.
Þórarinn Ingi Pétursson, formaður atvinnuveganefndar og þingmaður Framsóknarflokksins, segir frumvarpið og málið allt gríðarefnismikið og flókið.
Er eitthvað í því sem þú staldrar við?
„Já, það er náttúrulega þetta sem hefur verið efst á baugi undanfarna daga, þessi leyfi. Hvort þau eigi að vera tímabundin eða ótímabundin. Við þurfum að fara bara mjög vel yfir það í nefndinni hvernig við getum nálgast það, hvort þau eigi að vera tímabundin eða ótímabundin. Og það eru fleiri atriði þarna sem þarf að fara vel yfir,“ segir Þórarinn.
Hann telur ýmislegt í frumvarpinu til bóta en kveðst skilja gagnrýni umhverfissinna.
„Þetta verður flókið samspil fyrir okkur í nefndinni, að reyna að finna þennan gullna meðalveg þarna á milli og það er verkefnið fram á sumarið og verður gríðarlegt verkefni fyrir nefndina að fara í gegnum þetta.“
Telurðu að frumvarpið muni taka miklum breytingum í ykkar meðförum?
„Það er of snemmt að segja til um það.“
Er þetta umdeilt í þinum flokki?
„Nei, ekki þannig séð. Það eru náttúrulega ákveðnar efasemdir um ákveðna þætti en við sjáum það í Framsókn að sjókvíaeldi er komið til að vera,“ segir Þórarinn Ingi Pétursson, formaður atvinnuveganefndar.