Könnunin var gerð dagana 5. til 16. apríl. Samfylkingin mælist með 27,3 prósent en Sjálfstæðisflokkurinn með 17,2 prósent. Miðflokkurinn kemur þar á eftir með 11,6 prósent, með aðeins meira fylgi en Framsóknarflokkurinn sem mælist með 10,7 og Viðreisn með 10,2 prósent.

Píratar eru á svipuðum slóðum og áður með 8,5 prósent sem og Flokkur fólksins með 5,3 prósent. Vinstri græn mælast hins vegar með fimm prósent og hafa ekki mælst með minna fylgi hjá Maskínu á kjörtímabilinu.
Þegar fylgi flokkanna er skoðað miðað við þrjár síðustu kannanir Maskínu sést að Samfylkingin heldur sinni forystu sem stærsti flokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn dalar ef eitthvað er milli könnunar dagsins og fyrri kannana.
Miðflokkurinn er hins vegar að festa sig í sessi sem þriðji stærsti flokkurinn á Alþingi. Það eru nokkur tíðindi þar sem flokkurinn rétt náði á þing í síðustu kosningum með þrjá þingmenn og einn þeirra yfirgaf flokkinn og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.
Miðflokkurinn hefur rúmlega tvöfaldað fylgi sitt frá kosningum og Samfylkingin tæplega þrefaldað sitt fylgi.