Þingfundur Alþingis í morgun hófst á því að Guðmundar var minnst en hann var kosinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrst 1974. En hann hafði áður tekið sæti sem varaþingmaður. Guðmundur átti sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, bankaráði Verzlunarbanka Íslands og Íslandsbanka. Auk þessa sat hann í stjórn Lífeyrissjóðs Verslunarmanna. Guðmundur var áhugasamur um vestræna samvinnu og fyrsti formaður Varðbergs, félags áhugamanna þar um.
Birgir Ármannsson forseti Alþingis rakti feril hans, Guðmundur fæddist í Hafnarfirði en foreldar hans voru Garðar Svavar Gíslason kaupmaður og Matthildur Guðmundsdóttir húsmóðir. Guðmundur lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1950 og viðskiptafræði frá HÍ 1954. Hann stundaði framhaldsnám í hagfræði í Þýskalandi, var við nám í endurtryggingum hjá Lloyd´s í London og stúderaði markaðsfræði við Harvard í Bandaríkjunum 1965.
Guðmundur starfaði lengi sem fulltrúi og ritari Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og vann að verkalýðsmálum sem formaður VR. Þá sat hann í miðstjórn ASÍ.
Eiginkona Guðmundar var Ragnheiður Guðrún Ásgeirsdóttir læknaritari (1931-2008) en þau eignuðust tvo syni: Guðmund Ragnar og Ragnar Hannes en barnabörnin eru fjögur.