Umsóknarfrestur til náms í flestum deildum LHÍ rann út á miðnætti. Kristín Eysteinsdóttir rektor segir í samtali við fréttastofu að aldrei hafi jafn margar umsóknir borist.
„Umsóknirnar voru 538 í fyrra en eru nú tæplega þúsund. Listkennslan er eftir svo við munum sennilega enda í um þúsund umsóknum. Svo það er nánast hundrað prósent aukning.“
Kristín segir þessar tölur fara fram úr öllum væntingum.
„Við getum ekki tekið alla inn en það er gríðarlega jákvætt að þessi niðurfelling skólagjaldanna sé að hafa þessi áhrif.“
Þetta í raun staðfestir það sem við héldum, að kostnaðurinn væri stór hindrun fyrir mikið af nemendum.
Mesta aukningin í arkitektúr, hönnun og myndlist
Aðspurð segist Kristín ekki hafa áhyggjur af auknu brottfalli nemenda nú þegar þeir munu ekki þurfa að borga skólagjöld.
„Námið er einfaldlega þannig uppbyggt að það er áttatíu prósent mætingarskylda. Bekkirnir eru litlir þannig það myndast ákveðin stemning í kringum það. Það er ennþá ákveðinn klásus hjá okkur, eins og til dæmis í leikaranáminu. Þar sækja tvö til þrjú hundruð manns um en tíu komast inn. Þetta eru eftirsótt pláss og nemendur vilja útskrifast með sínum bekk á tilsettum tíma.“
Mesta aukningin segir Kristín að sé í arkitektúr, hönnun og myndlist. Leikaranámið er þó eftirsóttasta deild skólans líkt og undanfarin ár. Þá á hún von á því að aðsóknin verði enn meiri á næsta ári, sérstaklega í MA námið þar sem þeir sem sækja um það séu oft komnir með börn og þurfa að skipuleggja sig lengra fram í tímann.
„Við erum þakklát Áslaugu Örnu háskólaráðherra fyrir að gera okkur kleift að stíga þetta mikilvæga skref og skilja að fjárfesting í háskólanámi í listum og skapandi greinum mun skila sér margfalt til baka til samfélagsins. Framtíðin liggur í skapandi greinum og þessi stóraukna aðsókn staðfestir mikilvægi niðurfellingar skólagjalda sem tryggir jafnræði til náms óháð námsgrein,“ segir Kristín Eysteinsdóttir rektor LHÍ.