Innlent

Í­búar á Seyðis­firði enn inni­lokaðir

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Íbúar í Seyðisfirði hafa lengi kallað eftir bættum samgöngum yfir heiðina.
Íbúar í Seyðisfirði hafa lengi kallað eftir bættum samgöngum yfir heiðina.

Fjarðarheiði hefur verið lokuð síðastliðna fjóra daga og íbúar Seyðisfjarðar því verið innilokuð frá því á fimmtudag. 

„Fólk í vaktavinnu í álverinu kemst auðvitað ekki og þeir sem komu hingað yfir páskana sitja um kyrrt,“ segir Jón Halldór Guðmundsson aðalmaður í heimastjórn Seyðisfjarðar.

„Þeir hafa opnað hinar leiðirnar hérna fyrir austan en það er alls óvíst hvenær þeir komast í Fjarðarheiðina. Vegagerðin talar um að þetta sé erfiðasta leiðin til að eiga við. Þetta er auðvitað í 600 metra hæð.“

Veðrið sé hins vegar búið að ganga niður að mestu leyti.

„Það getur hins vegar verið mikill skafrenningur og slæmt skyggni. Svo liggur þessi snjór þannig að það þarf lítið til að það fari af stað flekaflóð.“

Þá sé farið að sjá á vöruúrvali kjörbúðarinnar. „Lítið um mjólkurvörur, brauð og ýmis konar ferskvöru,“ segir Jón Halldór. 

Óánægja ríkir með ástandið í bænum. 

„Það gengur ekki að vera fleiri daga innilokuð. Það er brýnt að fá Fjarðarheiðargöngin í gang.“ 

Göngin eru á samgönguáætlun en hafa hins vegar enn ekki farið í útboð þar sem þau eru vanfjármögnuð.

„Okkur finnst þetta mjög erfitt, að vera svona lengi innilokuð. Við erum uggandi, því ef það kemur upp alvarlegt slys eða annað. Það er að vísu læknir hér en ef það er alvarlegt slys þá gera þeir ekki mikið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×