Sem fyrr segir var matvælaframleiðsla og umhverfismál helsta viðfangsefni viðtalsins. Katrín sagði að Ísland þyrfti að stefna að aukinni sjálfbærni í matvælaframleiðslu, landið stóli of mikið á innflutning kornmetis. Hún segir innlenda matvælaframleiðslu mikilvægt öryggisatriði þjóðar.
Katrín segir græna raforku verðmæta auðlind sem nota ætti frekar í aðra starfsemi en rafmyntagröft, til að mynda matvælaframleiðslu. Stefnt sé að kolefnishlutleysi og aukinni framleiðslu grænnar orku, og rafmyntagröftur sé ekki hluti af þeirri vegferð. Hún bendir á að rafmyntaorkuver hafi notað um 120 megavött af raforku en öll heimili landsins noti aðeins um 100 megavött. Um þetta var fjallað á RÚV í sumar.

Fjallað er um það þegar fiskvinnslur og hleðslustöðvar voru knúnar áfram af dísel-brennsluofnum vegna orkuskorts í vetur.
Katrín imprar svo áfram á mikilvægi þess að styrkja innlenda matvælaframleiðslu, og segir Ísland vera í startholunum hvað varðar aukna kornrækt. Hún segir Ísland framleiða meirihluta sinna eigin dýraafurða en megi gera betur hvað varðar grænmeti og korn. Þessu er öllu fléttað saman við umræðu um skynsama raforkunotkun og umhverfisstefnu hvað varðar kolefnishlutleysi og græna orku.