Svo segir í tilkynningu sem Laila Sæunn Pétursdóttir hefur, fyrir hönd Helgu, sent til fjölmiðla. Helga hefur undanfarin rúm átta ár gegnt starfi forstjóra Persónuverndar en íhugar nú breytingar. Í tilkynningunni kemur fram að hún bjóði „til ávarps og stutts samtals um embætti forseta Íslands en hún hefur á undanförnum vikum fengið áskoranir til forsetaframboðs úr ýmsum áttum.“
Af þessu er ekki hægt að ráða annað en að Helga ætli að bætast í hóp þeirra sem ætla að bjóða sig fram í komandi forsetakosningum. Nú eru 42 sem eru skráðir á lista hjá island.is með það fyrir augum að þeir séu að safna undirskriftum. En fram hefur komið að einhver hluti þeirra sé þarna meira í gríni en alvöru. Helga bætist væntanlega í þann hóp fjótlega en hún hefur verið orðuð við framboð lengi.
Nú ríkir veruleg spenna um hvort Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra láti slag standa en sú ákvörðun verður ekki léttvæg fundin, það myndi setja ríkisstjórnarsamstarfið í uppnám. Þeir sem eru þegar komnir fram og mega heita raunverulegir kandídatar eru Halla Tómasdóttir forstjóra BTeam, Baldur Þórhallsson prófessor, Sigríður Hrund Pétursdóttir framkvæmdastjóri, Arnar Þór Jónsson lögmaður, Ástþór Magnússon og Ásdís Rán Gunnarsdóttir athafnakona.