Það er að minnsta kosti það sem ætla má út frá leikmannahópum liðanna. Úkraínumenn, sem voru ótrúlega nálægt því að skilja Ítalíu eftir og komast beint á EM úr undankeppninni, eru með leikmenn í sumum af allra bestu liðum Evrópu.
Ef horft er til leikmanna félagsliða í stóru deildunum fimm í Evrópu (efstu deildum Englands, Þýskalands, Ítalíu, Spánar og Frakklands), þá er staðan 8-4 fyrir Úkraínu miðað við 23 manna hópana sem liðin tefldu fram á fimmtudaginn. Úkraína vann þá afar torsóttan sigur á Bosníu, 2-1, eftir að hafa verið undir þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Zinchenko, Mudryk og Mykolenko bíða Íslands
Í liði Úkraínumanna eru þekktastir þeir Oleksandr Zinchenko, leikmaður Arsenal, og Myhkailo Mudryk, leikmaður Chelsea. Tveir leikmenn til viðbótar spila í ensku úrvalsdeildinni en það eru varnarmennirnir Vitaliy Mykolenko og Ilya Zabarnyi, sem spila með Everton og Bournemouth.

Fjórir leikmenn Úkraínu spila í efstu deild á Spáni, þar á meðal Artem Dovbyk sem er í baráttunni um gullskóinn eftir að hafa skorað 14 deildarmörk fyrir Girona í vetur. Hann skoraði sigurmarkið gegn Bosníu eftir fyrirgjöf Roman Yaremchuk, leikmanns Valencia, sem skoraði fyrra mark Úkraínu og er markahæstur í úkraínska hópnum með 14 mörk í 47 landsleikjum.
Aðalmarkvörður Real Madrid í rammanum
Markvörðurinn Andriy Lunin er orðinn aðalmarkvörður stórliðs Real Madrid, í fjarveru Thibaut Courtois sem verið hefur meiddur í allan vetur, og heldur hann Kepa Arrizabalaga á bekknum. Fjórði leikmaður Úkraínu á Spáni er svo Viktor Tsyhankov, sem skorað hefur 6 deildarmörk fyrir Girona í vetur, en hann var þó ekki í hópnum gegn Bosníu.

Loks er liðsfélagi Alberts Guðmundssonar hjá Genoa, Ruslan Malinovskyi, í liði Úkraínu og þar með níu leikmenn í æfingahópi Úkraínu sem spila í einhverri af fimm bestu deildum Evrópu.
Fjórir íslenskir í bestu deildunum
Hjá Íslandi eru auk Alberts þeir Hákon Arnar Haraldsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Hákon Rafn Valdimarsson á mála hjá félögum í einhverri af stóru deildunum. Hákon hefur spilað mikið að undanförnu með Lille en Jóhann lítið með Burnley og Hákon bíður þess enn að spila sinn fyrsta leik fyrir Brentford eftir komuna í janúar.

Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.