Albert skoraði þrjú mörk í 4-1 sigri á Ísrael en með honum komu íslensku strákarnir sér í hreinan úrslitaleik um laust sæti á EM í Þýskalandi í sumar.
Fyrsta markið skoraði Albert beint úr aukaspyrnu, næsta mark eftir einleik í gegnum vörnina og það þriðja með því að vera réttur maður á réttum stað eftir frákast.
Aðeins ellefu leikmenn höfðu náð því að skora þrennu fyrir leikinn í gærkvöldi og Albert var einn af þeim. Engum þeirra hafði tekist að skora tvær þrennur.
Albert skoraði fyrri þrennu sína í vináttulandsleik á móti Indónesíu á Jakarta í janúar 2018.
Það var jafnframt næstsíðasta þrennan fyrir landsliðið en í millitíðinni hafði Aron Einar Gunnarsson skorað þrennur í sigri á Liechtenstein í undankeppni EM í fyrra.
Albert er aðeins þriðji leikmaðurinn til að skora þrennu í keppnisleik en fyrstu átta þrennur íslenska landsliðsins litu dagsins ljós í vináttulandsleikjum.
Sá fyrsti til að skora þrennu í keppnislandsleik var Jóhann Berg Guðmundsson þegar hann skoraði þrennu í 4-4 jafntefli á móti Sviss í undankeppni HM í Bern í september 2013.
- Þrennur fyrir íslenska landsliðið:
- Albert Guðmundsson - 2
- 2018 á móti Indónesíu í vináttulandsleik
- 2024 á móti Ísrael í umspili um sæti á EM
- Ríkharður Jónsson - 1
- 1951 á móti Svíþjóð í vináttulandsleik (ferna)
- Teitur Þórðarson - 1
- 1975 á móti Færeyjum í vináttulandsleik
- Ragnar Margeirsson - 1
- 1985 á móti Færeyjum í vináttulandsleik
- Arnór Guðjohnsen - 1
- 1991 á móti Tyrkjum í vináttulandsleik (ferna)
- Þorvaldur Örlygsson - 1
- 1994 á móti Eistlandi í vináttulandsleik
- Bjarki Gunnlaugsson - 1
- 1996 á móti Eistlandi í vináttulandsleik
- Helgi Sigurðsson - 1
- 2000 á móti Möltu í vináttulandsleik
- Tryggvi Guðmundsson - 1
- 2001 á móti Indlandi í vináttulandsleik (æfingamót)
- Jóhann Berg Guðmundsson - 1
- 2013 á móti Sviss í undankeppni HM
- Aron Einar Gunnarsson - 1
- 2023 á móti Liechtenstein í undankeppni EM

Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.