Fótbolti

FIFA al­gjör­lega mótfallið bláu spjöldunum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, er ekki maður sem liggur á skoðunum sínum.
Gianni Infantino, forseti FIFA, er ekki maður sem liggur á skoðunum sínum. Ulrik Pedersen/DeFodi Images via Getty Images

Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, hefur alfarið sett sig upp á móti bláum spjöldum sem átti að kynna til sögunnar fyrr í mánuðinum. 

IFAB, Alþjóðaknattspyrnuráðið, ætlaði kynna blá spjöld innan knattspyrnunnar til leiks í byrjun febrúar. Hugmyndin var sú að leikmenn sem rífa kjaft við dómarann eða brjóta af sér á taktískan hátt – til að stöðva skyndisókn til dæmis – myndu fá blátt spjald. Hugmyndin var samþykkt af IFAB í nóvember á síðasta ári og ætlunin var að hefja notkun þeirra á næsta tímabili. 

FIFA setti sig upp á móti þeim aðgerðum, sem og margir knattspyrnuaðdáendur, og þar sem sambandið veitti ekki blessun sína var ákveðið að fresta notkun bláu spjaldanna um óákveðinn tíma. 

Gianni Infantino, forseti FIFA, hefur nú gert afstöðu sína, og sambandsins þar af leiðandi, alveg skýra í þessu máli. 

„FIFA er algjörlega mótfallið bláu spjöldunum. Ég vissi ekki einu sinni af þessu máli, forseti FIFA, og ég er nokkuð viss um að FIFA þurfi að veita IFAB samþykki“ sagði Infantino í viðtali. 

„Við þurfum að taka þessum málum alvarlega og við erum alltaf opin fyrir því að skoða nýjar leiðir, en á sama tíma verðum við að bera virðingu fyrir leiknum, eðli hans, hefðum og venjum. Það verður ekkert blátt spjald.“ hélt hann svo áfram. 

Eins og áður segir voru fleiri en Infantino mótfallnir þessari hugmynd, enska úrvalsdeildin setti sig til dæmis hart upp á móti henni. 

Afar ólíklegt verður því að þykja að bláu spjöldin muni nokkurn tímann líta dagsins ljós í knattspyrnukeppni á efsta stigi, þó enn sé til skoðunar að nota þau í neðri deildum eða yngri flokkum. 

Frekari hugmyndir verða svo áfram ræddar innan FIFA og IFAB til að sporna við slæmri hegðun og kjafbrúki leikmanna á knattspyrnuvellinum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×