Golf

Sonur Tigers freistar þess að komast á sitt fyrsta PGA-mót

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tiger og Charlie Woods.
Tiger og Charlie Woods. getty/v

Charlie Woods, fimmtán ára sonur Tigers Woods, reynir nú að komast á sitt fyrsta mót á PGA-mótaröðinni í golfi.

Í dag hefur Charlie leik á úrtökumóti fyrir Cognizant Classic mótið sem fer fram í Flórída dagana 29. febrúar til 3. mars næstkomandi.

Tuttuguogfimm kylfingar komast á lokaúrtökumót fyrir Cognizant Classic sem verður á mánudaginn. Á úrtökumótinu sem hefst í dag er Charlie í holli með öðrum Bandaríkjamanni, Olin Browne yngri, og Ruaidhri McGee frá Írlandi.

Tiger þurfti að draga sig úr keppni á síðasta móti á PGA-mótaröðinni, Genesis Invitational, vegna veikinda. Hann fékk vökva í æð eftir að hafa fundið fyrir svima.

Woods-feðgarnir hafa keppt saman á PNC meistaramótinu, þar sem golffeðgar leiða saman hesta sína, undanfarin fjögur ár. Þá hefur Tiger verið kylfusveinn fyrir son sinn á mótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×