Fótbolti

Højlund gæti slegið met um helgina

Sindri Sverrisson skrifar
Rasmus Højlund hefur verið sjóðheitur fyrir Manchester United undanfarið.
Rasmus Højlund hefur verið sjóðheitur fyrir Manchester United undanfarið. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Danski framherjinn Rasmus Højlund gæti slegið met í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á sunnudaginn ef hann skorar fyrir Manchester United gegn Luton.

Højlund þurfti fimmtán leiki til að skora sitt fyrsta mark í deildinni, sem kom á öðrum degi jóla í sigri á Aston Villa, en hefur núna skorað í fimm deildarleikjum í röð.

Hann er næstyngstur í sögunni til að ná því að skora í fimm leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni, á eftir Frakkanum Nicolas Anelka. Højlund er 21 árs og 12 daga en Anelka var aðeins 19 ára og 239 daga.

En ef Højlund skorar gegn Luton verður hann sá yngsti til þess að skora í sex leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni. Það met er núna í eigu Joe Willock sem var 21 árs og 272 daga þegar hann skoraði sjötta leikinn í röð árið 2021.

Þó að Højlund hafi verið lengi í gang í ensku úrvalsdeildinni þá raðaði hann inn mörkum fyrir United í Meistaradeild Evrópu í haust. Hann skoraði þar fimm mörk í sex leikjum og er enn einn af markahæstu mönnum keppninnar í vetur.

Højlund skoraði einnig mörg mörk fyrir danska landsliðið í undankeppni EM á síðasta ári eða sjö talsins, þar af ekkert úr víti, og varð í fimmta sæti á lista yfir markahæstu menn undankeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×