Um er að ræða seinni leikinn í umspilinu við Serbíu og fer hann fram þriðjudaginn 27. febrúar. Sigurliðið í einvíginu spilar í A-deild Þjóðadeildarinnar í ár og það gefur mun betri möguleika á að komast í lokakeppni EM 2025.
Lukkukrakkarnir ganga með leikmönnum beggja liða inn á völlinn og standa hjá þeim á meðan þjóðsöngvarnir eru spilaðir.
Leiktíminn er ansi óvanalegur en leikurinn hefst klukkan 14:30. Það er vegna þess að styrkur flóðljósa á íslenskum völlum stenst hvergi kröfur UEFA nema á Laugardalsvelli, sem er snævi þakinn og ekki leikhæfur á þessum árstíma.
Lukkukrakkarnir þurfa að vera undir 140 cm á hæð og á aldrinum 6-10 ára. Þeir fá bláan Puma-bol sem verður sérmerktur leiknum, og geta keypt hann á kostnaðarverði sem samkvæmt vef KSÍ er 4.800 krónur. Kaupa þarf miða fyrir að minnsta kosti einn fylgdarmann á leikinn, fyrir 2.500 krónur.
Nánar má lesa um málið á vef KSÍ en hægt er að skrá lukkukrakka með því að smella hér. Dregið verður úr skráðum nöfnum ef þess þarf.